151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[17:33]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér innflytjendamál. Margt hefur borið á góma og ýmislegt komið fram og í raun og veru kannski ekki svo rosalega miklu við það að bæta. Við í mínum flokki höfum verið kallaðir alls konar nöfnum og erum reyndar orðnir svolítið vanir því þegar við erum að flytja mál sem ekki eru allir sammála um og rökin eru þá ekki mikil á bak við nöfnin.

Þetta mál eitt og sér er ágætismál og það hefur komið fram hérna. Fjölmenningarsetrið á Ísafirði vinnur t.d. góða vinnu. Þetta fjallar um að fjölga starfsmönnum og breyta skipan í innflytjendaráði. Við það eitt og sér er ekkert athugavert nema það sem við erum að spyrja: Hver eru þá skilaboðin? Hver eru skilaboðin út í hinn stóra heim? Við höfum þá tekið fram hvernig nágrannaþjóðir okkar, frændþjóðir, eru farnar að taka á þessum málum, það hefur komið margoft fram hér, t.d. í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Þegar við segjum það þá erum við að spyrja um leið: Ætlum við að fara þá leið sem önnur Norðurlönd eru að snúa ofan af til þess að reka okkur á sama vegginn og síðan laga málin einhvern tímann seinna? Eða ætlum við að læra af reynslu frændþjóða okkar?

Ég var að rifja það upp á dögunum að þegar ég var ungur maður, sem er ekkert rosalega langt síðan, við getum sagt fyrir svona 40 árum, voru vinir mínir að velta því fyrir sér hvernig þeir ætluðu að eyða sumrinu. Við vorum nýbúnir í skóla og einhverjir ætluðu að fara að vinna. Einhverjir vinir mínir voru búnir að finna það út að ef þeir færu til Danmerkur og skráðu sig inn í landið kæmust þeir á sósíalinn, kæmust á atvinnuleysisbætur bara sisvona. Þeir fóru þarna tveir eða þrír og fengu útborgað fyrir að mæta inn í landið og voru svo bara að skemmta sér allt sumarið. Það er ekki hægt í dag í Danmörku vegna þess að þetta kostaði ríkið náttúrlega peninga og tilgangurinn, alla vega fyrir mér í dag, er ansi óljós nema bara það að menn geti komið til landsins og farið á sósíalinn og farið að skemmta sér. En einhvers staðar verður að taka peningana.

Þessi minning kom upp þegar við vorum að ræða þessi mál. Ég hef í sjálfu sér ekkert rosalega miklu við þetta að bæta öðru en því að mér finnst, ég verð að segja það, ekki sanngjarnt að þegar við í mínum flokki — sem erum oft sér á parti og erum oft ekki sammála mörgu hjá öðrum flokkum, ekki hjá ríkisstjórninni og meira að segja ekki hjá flokkum í stjórnarandstöðunni — stöndum í því stappi fáum við oft yfir okkur skírnir eins og rasistar og þar fram eftir götunum. Hvítir, miðaldra, frekir karlmenn, það er ein skírnin. Ég er nú bara mjög stoltur af því að vera hvítur, miðaldra karlmaður en það gerir mig ekki að vanhæfum manni fyrir vikið. Ég kveinka mér í raun og veru ekkert undan því. Mér finnst bara tímasóun að það séu einu rökin ef fólk er ekki sammála.

Hingað kemur fólk, eins og komið hefur fram, eftir ýmsum leiðum til landsins. Hingað koma innflytjendur til að vinna og mikið af því fólki hefur átt þátt í að byggja upp samfélagið síðustu árin. Ég veit ekki um marga sem eru ósáttir við það að útlendingar hafi komið til að vinna. Það kom fram í ræðu hjá þingmanni að einhverjir segðu að þeir tækju vinnu frá okkur. Ég er ekki einn af þeim sem segja það. Ég hef unnið með útlendingum og hef haft útlendinga í vinnu og þetta er meira og minna allt sómafólk, bara líkt og við hin, heimafólkið ef við getum sagt sem svo. Það er bara misjafn sauður í mörgu fé eins og gengur.

Síðan er kvótaflóttamannakerfið, sem kom fram í ræðu áðan að var sett á í tíð ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Það er mjög vandað kerfi. Svo eru hælisleitendurnir, sem ber oft á góma í þessari umræðu. Við höfum kallað eftir því í Miðflokknum að afgreiðsla þeirra mála verði stytt, að afgreiðsla á málum hælisleitenda verði skilvirkari. Við getum sagt að það hafi ekki fengið rosalega góðar undirtektir hjá mörgum en samt hjá einhverjum. Ég er ósammála því að það sem við höfum verið að tala um í ræðum um þetta mál komi því ekki við, því að við erum bara að spyrja þeirrar spurningar hvaða skilaboð felast í því að þetta mál er hér á dagskrá og getur sennilega orðið að lögum fyrr en varir. Hver eru skilaboðin út í hinn stóra heim? Í því felst engin mannvonska að ræða þessi mál, bara alls ekki. Ég vil koma því á framfæri að við erum að koma með þessa spurningu. Við viljum ekki að það kerfi sem við bjóðum upp á sé misnotað. Einhverja keppni um að vera „góðasta“ fólkið í öllum heiminum er ekki hægt að vinna, alls ekki með þessari aðferð. Við þurfum að horfa okkur nær. Við þurfum að sýna ráðdeildarsemi í fjármálum. Við þurfum að vera hnitmiðuð í því sem við tökum okkur fyrir hendur og við eigum að tala um hlutina eins og þeir eru en ekki í einhverjum uppboðsstíl eða hver sé bestur og hver sé „góðastur“, ef ég má segja sem svo. Þá keppni getur enginn unnið. Oft er nú sannleikurinn í því hver sýnir mesta manngæsku ekki endilega það sem fólk lætur út úr sér heldur það hvernig það vinnur og hvað er mikil skynsemi í því sem það gerir.

Það er hægt að fílósófera í kringum þetta fram og til baka. En ég endurtek það sem ég sagði áður, og er megintilgangur þess að við erum að andæfa því að við séum að stagbæta kerfi sem við vitum ekki hvaða afleiðingar hefur: Hver eru skilaboðin?