151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[18:12]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég kem aðallega hér upp í ræðustólinn af því að hv. þingmenn Miðflokksins söknuðu Sjálfstæðismanns. Ég skil þann söknuð og ég vil ekki að Miðflokksmenn þjáist af vanlíðan þannig að ég kem hér í ræðustólinn. Ég hef hlustað mikið á þessar ræður, kannski aðallega vegna þess að ég var fastur í stólnum hér fyrir aftan. Hún fer auðvitað út um víðan völl, minnst um frumvarpið sjálft, og þó, frumvarpið snýr að hælisleitendakerfinu og þá er mjög eðlilegt í sjálfu sér að það sé tekin alvöruumræða um hælisleitendakerfið. Ég geri enga athugasemd við það. Ég held að við höfum gott af því að taka þessa umræðu. Hún hefur svolítið verið þögguð niður með upphrópunum. Það má ekki einu sinni vera með tillögur um að bæta kerfið og hraða afgreiðslu, það verður allt einhvers konar aðför að slíkum málum í sérkennilegri baráttu fyrir því að hafa kerfið óbreytt.

Vandamálið er, og það er stóra vandamálið sem við eigum að ræða, að hælisleitendakerfið er algerlega hrunið. Það er stjórnlaust. Það er fullkomlega stjórnlaust kerfi. Það er orðið þannig að hver sem er getur farið í flugvél til Íslands og leitað eftir vernd, sem tekur kannski mörg ár að afgreiða, vitandi það að viðkomandi uppfyllir ekki skilyrði laganna til að fá vernd. Mörgum finnst það ekkert tiltökumál að íslenskir skattgreiðendur borgi það eins og ekkert sé, á grundvelli einhvers konar manngæsku eða eitthvað. Við erum á mjög hættulegri braut þar. Það er ekki að ástæðulausu að vinstri ríkisstjórnin í Danmörku herðir þessar reglur og segir: Við getum ekki haft þetta kerfi. Það er einhver ástæða fyrir því, ekki af því að danskir vinstri menn hafi ekki sömu manngæsku og íslenskir vinstri menn. Það er einhver önnur ástæða. Þeir sjá einfaldlega að þeir eru löngu búnir að missa tökin og það verður ekki við unað að halda þessu óbreyttu áfram, þeir munu ekki ráða við það og það mun skaða danskt samfélag. Ef við höldum þessu óbreyttu, stjórnlaust, allt byggt á endanum á einhverjum geðþóttaákvörðunum embættismanna, og við ein kannski komin í það, þá munum við aldrei ráða við það. Hver eru skilaboðin út í heiminn? Komið bara hingað. Það gæti breyst úr nokkur hundruð á mánuði í nokkur þúsund eins og hendi sé veifað. Og hvað ætla menn að gera? Kerfið gerir ekki ráð fyrir því, það fer allt í sama farveginn.

Við getum ekki haldið svona áfram, alveg sama hvað við viljum vera góð. Þetta er ekki hægt. En það er ekki þar með sagt að við tökum ekki við flóttamönnum. Ég er algerlega ákveðinn í því að við þurfum að standa við okkar skyldur í að leysa flóttamannavandann, hvernig sem við gerum það. Við þurfum að taka við ákveðnum fjölda. Sjálfur vil ég auka möguleika útlendinga utan EES á að koma hér í vinnu. En menn munu sjálfsagt samt segja að ég sé á móti útlendingum. Það er alveg fjarri lagi. Ég vil rýmka möguleika útlendinga til að koma hér til starfa. En ég ætla ekki að búa til stjórnlaust kerfi og stuðla að því að hver sem er, sem er að freista gæfunnar, ég skil það fólk fullkomlega, geti komið hér, verið í nokkur ár á kostnað íslenskra skattgreiðenda vitandi að það fær að öllum líkindum nei eftir tvö ár. Ætla íslenskir stjórnmálamenn bara að horfa á þetta vera svona áfram af því við erum svo góð? Það er ekki hægt. En stöndum við við okkar skyldur vegna flóttamannavandans?

Þegar útlendingalögin voru sett hér 2016 þá sat ég á þingi. Ég var í ríkisstjórn. Þetta var þverpólitískt starf. Mín reynsla er sú að þegar frumvörp eru búin til þverpólitískt þá eru þau örugglega ekki góð. Ég samþykkti ekki þetta frumvarp. Ég varaði við því. Ég sagði einfaldlega: Hér er verið að opna eitthvert box sem við munum á endanum aldrei ráða við eða við höfum alla vega engin úrræði í lögum sem ráða við það. Svo kemur að því einhvern tíma. Og í staðinn fyrir að reyna að koma einhverri stjórn á þessa hluti og hafa einhverja stefnu í þessu þá snýst þetta frumvarp bara um það að tryggja að þeir sem koma hér úr flugvél frá Evrópu fái sömu þjónustu og réttindi og þeir sem við erum að taka inn sem kvótaflóttamenn. Það verður ekkert hjá því komist, á endanum þurfum við að fara sömu leið og Danir, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Og af hverju gera Norðmenn það og Svíar? Þetta er nú mesta manngæskufólk heimsins og hefur verið mjög lengi. En það toppar enginn íslenska vinstri menn í manngæskunni. Nei, við erum komin í svo undarlegt þöggunarumhverfi, undarlegan pólitískan rétttrúnað, að við látum þetta gerast.

Nokkrir þingmenn hafa minnst hér á kostnaðinn, 4 milljarða. Hann er auðvitað miklu meiri. Menn verða að taka inn álagið á heilbrigðiskerfið, á réttarvörslukerfið, félagsmálakerfið o.s.frv., þetta er miklu nær 10 milljörðum en 4 milljörðum. Ef þetta verður stjórnlaust eins og þetta er svolítið orðið núna þá ráða innviðirnir ekkert við þetta. En stjórnvöld geta ekki brugðist við af því að lögin eru eins og þau eru. Við verðum að hafa dug í okkur til að reyna að koma einhverjum böndum og stjórn á þetta. Við getum gert það gegnum flóttamannakerfið. Þá tökum við eins og við ráðum við og það eru þá sannarlega flóttamenn og við ákveðum sjálf hverjir koma. Um það á þetta að snúast. En þessi umræða nær aldrei að eiga sér stað um það hvernig við eigum að glíma við þennan vanda. Annaðhvort ertu bara á móti útlendingum eða þú ert með kynþáttahyggju eða einhvern veginn þannig og þá er umræðan farin út af borðinu. En við berum ábyrgð. Við erum kosin til að gæta hagsmuna þessarar þjóðar. Við erum ekki kosin til að gæta hagsmuna heimsins en við erum hluti af heiminum og við berum ákveðnar skyldur og ég vil standa við þær. Það stendur ekki á mér í því frekar en öðru. En við, íslenskir stjórnmálamenn, verðum að sýna einhvern dug og taka á þessu.

Af hverju er það þannig að þeir sem koma hér úr flugvél og við vitum að þeir eru ekki einu sinni frá þeim löndum sem þeir geta talist flóttamenn frá, við vitum það, geta komið? Í hælisleitendakerfinu, af því við höfum þetta kerfi, getur þú bara farið upp í flugvél og komið. Og hverjir nýta þessi kerfi? Þegar við erum með svona kerfi er auðvelt fyrir alþjóðlega glæpahringi að komast til landsins. Þeir komast ekki í gegnum flóttamannakerfið, þeir koma svona í gegn. Ég er ekki að halda því fram að þeir sem koma svona séu flestir þannig og örugglega langfæstir, kannski bara örlítið brot, en engu að síður er hælisleitendakerfi af þessu tagi ávísun á vandamál, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Mín vegna má bæta við kvótaflóttamönnum ef við ráðum við það, hafa þá fleiri. Ég vil fá fleiri útlendinga sem hafa hæfni til starfa þótt þeir séu ekki innan EES, það er ekki vandamál af minni hálfu.

Einhvers staðar heyrði ég að það væru hlutfallslega sexfalt fleiri sem kæmu hingað sem hælisleitendur, sem koma hér úr flugvél frá einhverri borg í Evrópu. Svo koma menn hér í ræðum og hér er alltaf til nóg. Það er ekki bara spurning um peningana sem fara beint í þetta heldur er þetta spurning um innviði samfélagsins og önnur vandamál sem fylgja þessu ef þetta verður stjórnlaust, sem þetta er orðið.

Ég verð að segja alveg eins er: Ég hef enga trú á að íslenskir stjórnmálamenn taki á þessu frekar en öðrum vandamálum tengdum því. Þeir munu aldrei gera það af því að þeir eru alltaf að segja heiminum hvað þeir eru góðir og hvað við íhaldsmenn eru vondir. Menn tengja þetta við eitthvert frjálslyndi. Það hefur ekkert með frjálslyndi að gera að hver sem er geti komið inn á kostnað okkar allra sisvona. Menn geta hugsanlega kallað það frjálslyndi ef þeir kæmu á eigin kostnað og gætu bara verið hér, punktur. Nei, þetta er pólitík sem snýr að því að það eigi ekki að vera nein landamæri. Ég get samþykkt þá pólitík ef menn segja: Já, ókei, engin landamæri. En þá er heldur ekkert velferðarkerfi sem skattgreiðendur halda uppi. Þá er bara allt opið og hver verður að bjarga sér ef þú ætlar að hafa engin landamæri og allir geta verið hér sem vilja vera. Gott og vel. Það er þá einhver pólitík sem við getum rökrætt. En við getum ekki boðið þessari þjóð upp á stjórnleysi í þessu áfram. Við verðum að taka okkur á. Ég vona að ég fái einhver andsvör við þessu.