151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[18:36]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það voru bara samþykkt lög hér 2016, þverpólitísk, um að koma á þessu kerfi sem er núna. Í hælisleitendakerfinu þýðir það auðvitað að kraninn er opinn af því að lögin eru eins og þau eru. Það er enginn stoppari í lögunum. Ef það koma 20.000 manns, þá verður að skrúfa alveg frá báðum krönum, ég tala nú ekki um ef það koma 30.000 eða 40.000. Lögin gera ekki ráð fyrir neinum stoppara. Þess vegna samþykkti ég ekki lögin á sínum tíma, af því að ég sá alveg fyrir mér að þetta gæti orðið stjórnlaust. Það er bara verið að opna pandórubox sem gæti orðið stjórnlaust. Þess vegna er ég mjög skeptískur á allt sem heitir þverpólitískt. Það er ávísun á léleg frumvörp og lélega löggjöf vegna þess að það er verið að plástra hér og þar. Markmiðið er auðvitað að taka vel á móti flóttafólki, þeim sem eiga um sárt að binda og hafa engan annan stað vegna þess að það er stríð eða einhverjar sérstakar aðstæður. Hælisleitendakerfið snýst ekkert um það, nema þá algert brotabrot. Það er allt annað. Það er þess vegna sem Danir eru að ákveða: Þetta hælisleitendakerfi er alveg úr sér gengið, þetta er stjórnlaust, þetta eru bara kranar og við ráðum ekki við þetta og við erum bara að gefa röng skilaboð um allan heim. Nú erum við þeir einu eftir í Skandinavíu sem erum að senda röng skilaboð og þess vegna þurfum við sjálfsagt að kaupa aukakrana á næstu misserum.