151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[18:45]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ekki var allt alslæmt í þessum lögum, auðvitað ekki, að sjálfsögðu ekki. Það sem hefur kannski truflað mig mest er í fyrsta lagi það að við erum búin að afhenda matskenndu hlutina í þessum málum til umboðslauss fólks, til úrskurðarnefnda. Við erum með það mjög matskennt hvað er af mannúðarástæðum. Það er hið pólitíska vald sem á að meta það í mínum huga, ekki umboðslaust fólk úti í bæ eins og ég kalla það. Útlendingastofnun byrjar auðvitað á að taka einhverja ákvörðun út frá lögunum. Síðan finnst mér eðlilegast að það sé kæranlegt til ráðherra, að ráðherra hafi endanlegt vald eins og stjórnarskráin gerir ráð fyrir. Menn eru alveg búnir að gleyma stjórnarskránni þegar kemur að þessu. Vandinn við lögin er auðvitað sá að hælisleitendakerfið er bara þannig að hver sem er getur komið. Það fer í ákveðna meðferð sem við vitum um. Það er mjög flókið að finna út hvort um sé að ræða réttan aðila. Það er svo flókið að vita allt um bakgrunninn o.s.frv. Einhver gæti sagt: Þú kemur frá Frankfurt, vertu bara áfram þar þangað til við tökum beiðnina og förum yfir málið. Af hverju áttu að vera hér? Það er ein hugsun í þessu. Við getum ekki tekið þetta allt saman. Við ráðum ekki við það. Við þurfum að fara yfir lögin í heild sinni að mínu viti.