151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[19:02]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil bara spyrja sömu spurningar og ég var spurður áðan: Hver er stefna Miðflokksins? Hvað telur Miðflokkurinn að þurfi að gera? Þarf að breyta lögunum? Þarf heildarendurskoðun? Hvað eigum við að gera? Eigum við bara að vona það besta? Þetta er lykilspurningin. Ég velti fyrir mér hvað Miðflokksmenn sjái fyrir sér að við getum gert, þótt það væri kannski bara til skamms tíma meðan við förum yfir þetta. Þurfum við að gera eitthvað núna? Er eitthvað sem kallar á aðgerðir núna? Hvernig sjá menn fyrir sér að þessu verði breytt? Eru menn kannski sammála mér um að hælisleitendakerfið sé úr sér gengið og að við eigum bara að veita þeim vernd hér sem koma í gegnum flóttamannakerfið okkar, sem er hluti af alþjóðlegu starfi, og sinna skyldum okkar þar? Hverju þurfum við þá helst að breyta í lögunum? Er það eitthvað meira en hælisleitendakerfið eða eru einhver önnur atriði sem eru brýn o.s.frv.? Er kannski stefna Miðflokksins jafn óljós og Sjálfstæðisflokksins?