151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[19:06]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Forseti. Já, ég er greinilega eitthvað að nálgast Miðflokkinn, heyrist mér. Hv. þingmaður talar um þessa nefnd og pólitíska forystu. Sjálfur tel ég að slík nefnd hafi ekki neitt gildi nema þar sé pólitísk forysta um að menn ætli einhverja leið og segi: Við ætlum að hafa stjórn á þessu, við ætlum að stjórna því hverjir koma hingað inn o.s.frv. Nefnd af þessu tagi er að mínu viti tilgangslaus annars. Nefndin gæti þá náð utan um hvernig eigi að vinna verkið, standa við skuldbindingar okkar o.s.frv. Það er lykilatriðið í svona starfi. Ég tek undir með hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni að í málaflokknum hefur því miður ekki verið alvöru pólitísk forysta. Það er auðveldara að ýta málum í nefnd, helst þverpólitíska, og segja henni að gera eitthvað. En það mun ekkert koma út úr því. Það er alveg hárrétt, hv. þingmaður. Við þurfum pólitíska forystu í þessu þar sem menn hafa að markmiði að hafa stjórn á þessum hlutum, tryggja að við stöndum við skuldbindingar okkar, tryggja það að við tökum vel, svo sómi sé að, á móti því fólki sem fær vernd eða fær stöðu hér sem flóttamenn. Það er auðvitað kjarni málsins og ég spyr: Er hv. þingmaður ekki sammála því?