151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[23:10]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Mig langar aðeins í þessari ræðu að nefna orðræðuna. Umræða um málefni umsækjenda um alþjóðlega vernd, sem eru í daglegu tali kallaðir hælisleitendur, kallar oft á öfgafull viðbrögð. Þeir sem leyfa sér að viðhafa varnaðarorð eru gjarnan kallaðir öllum illum nöfnum fyrir þær einu sakir að vilja stíga varlega til jarðar, líkt og ég ræddi um hér í fyrstu ræðu minni í dag. Fullyrðingar eins og að menning okkar sé kúgandi feðraveldi heyrir maður oft. Þetta eru að öllu leyti ósannindi. Við höfum sem betur fer náð langt í mannréttindum. Hér er gott regluverk að mestu leyti og ber okkur að verja þau gildi sem við viljum standa fyrir og gera sömu kröfur til þeirra sem koma hingað og okkar sjálfra. Kerfið okkar, sérstaklega velferðarkerfið, á sér þolmörk og alveg sama hversu velviljuð við erum og hversu stórt hjarta sem við höfum þá ber okkur að verja það. Það eru skyldur okkar við forfeður okkar og -mæður sem bjuggu til velferðarkerfið sem við vinnum með í dag. Það stökkva fram hópar af sjálfskipuðum hugmyndafræðingum. Ef þú ert hugmyndafræðingur trúir þú öllu sem þér finnst. Hópur fólks sem er ofurviðkvæmt hefur lítt umburðarlyndi fyrir skoðunum sem ekki samræmast skilningi þess á eigin sérstöðu. Þetta fólk er ofurviðkvæmt fyrir ýmiss konar réttindum en gleymir jafnframt að öll höfum við skyldum að gegna. Því miður þolir þetta fólk oft ekki mótlæti og virðir alls ekki andstæðar skoðanir. Rökþrota fólk grípur því til þess að saka aðra um að hafa annarlegar hvatir. Slíkt er með öllu óþolandi, hæstv. forseti. Enginn hér mun sitja undir því að vera sakaður um slíkt og við verðum að þora að taka umræðu um það.

Það mál sem hér hefur verið rætt, ekki svo lengi, virðist kalla fram viðbrögð en viðbrögðin koma að vísu helst úr einni átt. Ég spyr: Hvar eru hinir? Þora þeir ekki að taka umræðuna eða er búið að beita þingmenn flokka þeim aga að þeir þora ekki að tjá sig? Viljum við virkilega hafa hlutina þannig? Er tjáningarfrelsið orðið aukaatriði og rétthugsun það eina sem leyft er, hæstv. forseti? Og ég spyr í framhaldi af því: Hvar eru þingmenn hinna flokkanna, Sjálfstæðisflokksins? Hvar eru þingmenn Framsóknarflokksins? Hvar eru þingmenn Vinstri grænna? Hvar eru þingmenn Samfylkingarinnar? Hvar eru þingmenn Viðreisnar og Flokks fólksins? Við þingmenn Miðflokksins sem höfum mest rætt þetta mál viljum vekja athygli á því og spyrja um leið hvort við séum að fara þá leið sem frændur vorir Danir, Norðmenn og Svíar eru að hverfa frá. Eru skilaboðin í þessu frumvarpi þau, úr því að t.d. þessi lönd eru að sveigja frá þeirri leið sem við virðumst vera að byggja undir, að hingað geti þeir komið sem ekki komast annað? Vitum við út í hvað við erum að fara með þessu frumvarpi, hæstv. forseti?