151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

störf þingsins.

[13:11]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Ef vikið er að störfum þingsins þessa vikuna vil ég byrja á umræðu af hálfu Viðreisnar um helsta stefnumál sitt; að ganga í ESB og taka upp evruna. Ef við höfum ekki krónuna til að taka höggið vegna ytri áfalla verður að líta á tillögu Viðreisnar sem tilboð um stórfellt atvinnuleysi þegar á bjátar í þjóðarbúskapnum. Verðbólgan er orðin mikið áhyggjuefni. Ekkert lát er á henni og hún er langt umfram markmið Seðlabankans. Ríkisstjórnin hefur engan viðbúnað til að verja heimilin sem mörg hver standa berskjölduð vegna tekjusamdráttar og atvinnuleysis. Engin viðleitni er höfð uppi til að koma t.d. í veg fyrir að lánastofnanir velti fjárfestingarmistökum eða óhóflegum rekstrarkostnaði á lántakendur með hærri vöxtum á breytilegum lánum. Fjármálaráðherra opnaði nýja vídd í skerðingum á kjörum aldraðra með því að áforma að lögfesta að greiðslur úr lífeyrissjóðum breytist aðeins einu sinni á ári með vísitölu neysluverðs en ekki mánaðarlega eins og verið hefur a.m.k. frá árinu 1997.

Að lokum: Umræða gærdagsins um hælisleitendamál dró skýrt fram að við hér uppi á Íslandi fylgjum stefnu sem nágrannaþjóðir hafa látið af og lýsa sem mistökum. Við svo búið má ekki standa.