Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

störf þingsins.

[13:16]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Síðustu fjöldamörg ár hafa hjúkrunarheimilin í landinu verið rekinn með miklum halla. Fjárveitingar frá ríkisvaldinu til heimilanna, sem aðallega eru í formi daggjalda, hafa ekki hækkað í takt við verðlag eða kröfur um þjónustustig. Á þetta hafa Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu margoft bent og vilja leiðréttingu en tala fyrir daufum eyrum stjórnvalda. Hjúkrunarheimilin eru ýmist rekin af sveitarfélögunum eða í félagaformi og þá af sjálfseignarstofnunum, einkahlutafélögum eða félagasamtökum. Nýlega kom út fróðleg skýrsla um greiningu á rekstrarkostnaði hjúkrunarheimila. Þar er meginniðurstaðan að flest séu hjúkrunarheimilin rekin með halla en einungis 13% heimilanna nái endum saman. Heildarhallinn nemur 1.497 millj. kr. á árinu 2017–2019. Það sem vekur athygli er að hallinn er þó mun meiri því að sveitarfélögin lögðu talsvert til rekstrar einstakra heimila. Ef svo hefði ekki verið væri hallinn á tímabilinu er 3,5 milljarðar.

Herra forseti. Sveitarfélög víða um land hafa þannig hlaupið undir bagga og neyðst til að leggja rekstrinum til fjármagn sem hefur lengi verið að sliga mörg sveitarfélög. Þetta hafa sveitarfélögin þurft að gera þrátt fyrir að ríkið beri ábyrgð á málaflokknum og daggjöldin eigi að duga til að greiða fyrir veitta þjónustu. Það er sami aðilinn, ríkið, sem setur fram þjónustukröfurnar en þráast svo við að greiða samkvæmt því. Samningar við ríkisvaldið um greiðslur fyrir þjónustuna hafa verið tafsamir eins og víða á sviði heilbrigðismála og einkennst af þursahætti og þvermóðsku. Af þessum sökum hafa fjölmörg sveitarfélög ákveðið að skila rekstri hjúkrunarheimila til ríkisins. Það stefnir í að ríkið fái málaflokkinn meira og minna allan í fangið eins og kannski var ætlunin því að nú eru tímar miðstjórnarvaldsins. Miðstjórnin mun sjá um gamla fólkið, a.m.k. virðist sem stjórnvöld telji að öllum hlutum sé best fyrir komið í fangi ríkisins, að ríkisrekstur sé það eina rétta.

Nú er öllum það kunnugt að verulega mun fjölga í hópi eldri íbúa í landinu á næstu árum og áratugum. Ætlum við ekki að fara að sinna þessum málaflokki sómasamlega, herra forseti? Hvernig má þetta ganga með þessum hætti? Er engin stefna í þessum málaflokki? Er stefnan sú að stinga höfðinu í sandinn og látast ekki sjá vandann?