151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

störf þingsins.

[13:22]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Í gær var sérstök umræða í þinginu um efnahagsmál. Þar benti ég m.a. á að íslenska krónan væri stór áhættuþáttur í íslensku efnahagslífi og þar með fjármálum heimila og fyrirtækja. Rétt væri því að huga að því að taka upp evru eða tengjast henni föstum böndum. Hæstv. fjármálaráðherra var ekki á því máli.

Herra forseti. Viðbrögð fjármálaráðherra vöktu athygli oddvita Viðreisnar í Suðurkjördæmi, Guðbrands Einarssonar, forseta bæjarstjórnar í Reykjanesbæ, en hann var líka formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja um árabil. Guðbrandur sagði á Facebook-síðu sinni, með leyfi hæstv. forseta:

„Íslenska krónan er blessun segir fjármálaráðherra af því að það er hægt að breyta gengi hennar. Gengislækkun er hins vegar bara eignatilfærsla frá almenningi til þeirra sem eiga gjaldeyri eða eru í útflutningi. Í hruninu var kaupmáttur launafólks helmingaður með gengisfellingum. Að viðhalda krónu er bara einföld leið til að stela af fólki.“

Guðbrandur kjarnar vandann vel og afleiðingar hans í þessari færslu sinni.

Herra forseti. Sagan kennir okkur að meint blessun krónunnar er fljót að breytast í bölvun. Sviptingar í gengi krónunnar hafa slæm áhrif um allt samfélagið og eru þannig frekar rót vandans en lækningin við honum. Krónan kemur ekki í veg fyrir atvinnuleysi. Krónan kemur ekki í veg fyrir verðbólgu. Krónan tryggir ekki samkeppnishæfa vexti. Það eru einfaldlega rangar staðhæfingar. Krónan hjálpar ekki til við að byggja upp traustara og fjölbreyttara atvinnulíf sem byggist á hugviti og tækni. Hún dregur úr möguleikum en eykur þá ekki. Íslenska krónan er ekki blessun.