Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

störf þingsins.

[13:25]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Fyrir stuttu kynnti hæstv. menntamálaráðherra svokallaðar viðbótarstuðningsaðgerðir við stúdenta vegna heimsfaraldursins. Við fyrstu sýn líta aðgerðirnar ágætlega út. Þar er t.d. talað um tímabundna hækkun grunnframfærslu í formi tímabundins viðbótarláns. Þegar betur er að gáð getur lánið numið 6% álagi á grunnframfærsluna en stendur hins vegar aðeins þeim námsmönnum til boða sem hafa ekki verið með tekjur yfir heimiluðu frítekjumarki árið 2020, sem sagt ekki síst þeim stúdentum sem ekki hafa þurft að vinna með námi. Forsvarsfólk stúdenta hefur gagnrýnt ráðherrann harðlega fyrir dugleysi í að ráðast að raunverulegum rótum vanda stúdenta sem við vitum öll að er grunnframfærslan sjálf. Hún er enn of lág. Það sem stúdentar eru að biðja um er í raun ekki annað en að hægt sé að lifa af námslánum og að framfærslan samsvari dæmigerðu neysluviðmiði félagsmálaráðuneytisins. Það er krafa sem við þekkjum og sem stúdentar hafa barist fyrir árum saman. Þegar breytingar voru nýverið gerðar á lánafyrirkomulaginu með frumvarpi ráðherra um stofnun Menntasjóðs var grunnframfærsla námslána ekki hreyfð, ekki að nokkru leyti. Viðreisn lagði þá fram breytingartillögu til að bæta þar úr. Hún var felld. Í fyrra var hækkun á grunnframfærslu 0 kr. Hið sama gerðist aftur 1. apríl; engin varanleg hækkun. Það þýðir ekki að pakka aðgerðum eins og þessum inn í fínar umbúðir með slaufu og segja að verið sé að mæta kröfum stúdenta þegar reyndin er allt önnur. Forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands kjarnaði þetta vel á dögunum þegar hún sagði, með leyfi forseta: Ef kallinu er ekki svarað þegar neyðin er mest, hvenær þá?