Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

störf þingsins.

[13:29]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Í gær var ég kynntur sem 15. þingmaður kjördæmis, sem var ágætisáminning um það hversu ójöfn skipting er á þingsætum hér á landi. Ef skipting þingsæta ætti að vera sem jöfnust milli núverandi kjördæma eftir fólksfjölda ætti Norðvesturkjördæmi að vera með fimm þingsæti, Norðausturkjördæmi sjö, Suðurkjördæmi tíu, Suðvesturkjördæmi 18 og Reykjavíkurkjördæmi með 24 eða 12 í hvoru kjördæminu. Það er þó ekki eina skiptingin sem er ójöfn. Skipting sæta milli þingflokka er einnig mjög ójöfn. Miðað við hlutfallslegt fylgi flokka fékk Sjálfstæðisflokkurinn tvö aukaþingsæti, Framsóknarflokkurinn fjögur, Samfylkingin eitt og Björt framtíð eitt aukaþingsæti í kosningunum 2013. Í kosningum 2016 fékk Sjálfstæðisflokkurinn fimm auka þingsæti, Vinstrihreyfingin – grænt framboð tvö aukaþingsæti, Píratar tvö og Viðreisn eitt. Málin flækjast hins vegar enn meira þegar hinn svokallaði 5% þröskuldur bætist við. Þá skekkist skiptingin enn meira og nógu slæm er hún þó.

Auðveldasta lausnin á þessu vandamáli er að fjölga jöfnunarsætum. Það þarf ekki að breyta stjórnarskránni til þess og ætti ekki að vera ævintýraleg, óvænt uppákoma, eins og var haft eftir forseta þingsins í fréttum RÚV í gær. Það er nákvæmlega ekkert flókið eða ósanngjarnt við að fjölga jöfnunarþingmönnum, mjög einfalt þegar allt kemur til alls. En augljóslega þarf þó að laga fleira til að gera kosningakerfi okkar sanngjarnt. Til að hlutfall atkvæða til flokka endurspeglist í hlutfalli þingsæta þarf að afnema 5% regluna og helst að fjölga þingmönnum. Ágætt fyrsta skref væri þó ef ráðherrar myndu stíga til hliðar sem þingmenn. Flokkarnir sem ráða og hafa ráðið hafa hins vegar ekki viljað breyta. Þeirra er ævintýralega ósanngjarna lýðræðið sem við búum við, lýðræði sem getur búið til meiri hluta úr minni hluta atkvæða.