151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

störf þingsins.

[13:31]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Fátækt er hugtak sem okkur er oft tamt á tungu. Við þekkjum það of vel. Þúsundir Íslendinga í öllum aldurshópum búa við fátækt, tilfinnanlegan skort. Ekki hvað síst býr eldra fólk og öryrkjar við ósæmandi aðstæður að þessu leyti, hreina fátækt eða lágtekjuvanda. Stefán Ólafsson, fyrrverandi prófessor við Háskóla Íslands og sérfræðingur hjá Eflingu, hefur að undanförnu fjallað um kjör lífeyrisþega og væntanleg er skýrsla frá honum um þetta áleitna efni sem byggir á viðamikilli úttekt á lífeyrissjóðakerfinu. Hann tekur þar á samspili almannatrygginga og lífeyrissjóða, hvernig þeir þættir móta tekjur ellilífeyrisþega og öryrkja og hvernig ofnotkun skerðinga í almannatryggingakerfinu stýrir lágtekjuvanda lífeyrisþega. Hann færir rök fyrir því að bæði frítekjumark almannatrygginga og hámark lífeyris sé allt of lágt. Staðreyndin er sú að útgjöld íslenska ríkisins vegna ellilífeyris eru ein þau lægstu sem þekkjast meðal þróaðra vestrænna ríkja. Þegar kemur að velferðarkerfinu í heild sinni er ljóst að Ísland er meðal þeirra landa innan OECD sem ver hvað minnstum hluta af landsframleiðslu til velferðarmála. Þar er Ísland langt á eftir Norðurlandaþjóðunum. Þrátt fyrir lítil útgjöld ríkisins vegna lífeyrisgreiðslna hefur sú öfluga þróun átt sér stað að skattbyrði lífeyrisþega hefur stóraukist síðan 1990. Í langflestum OECD-ríkjum eru sértækar skattaívilnanir hjá lífeyrisþegum, en á Íslandi er ekkert slíkt að finna. Hins vegar fær stóreignafólk, sem borgar sér fjármagnstekjur, gríðarlegar skattaívilnanir, enda er 22% skattur af fjármagnstekjum hátekjufólks, en skatturinn er 47% sem vinnandi fólk og lífeyrisþegar þurfa að greiða af sínum hæstu tekjum, ef við getum sagt sem svo. Þeir hópar sem verst verða fyrir barðinu á skerðingum almannatrygginga eru lágtekjufólk, konur, öryrkjar og innflytjendur. (Forseti hringir.) Þetta er pólitík sem okkur jafnaðarmönnum hugnast alls ekki.