151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

um fundarstjórn.

[13:36]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Þetta er skýrslubeiðni, eins og fram kom hjá hv. þm. Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur, beiðni um skýrslu frá heilbrigðisráðherra um breytingar á skipulagi og framkvæmd skimunar fyrir krabbameini í leghálsi, svo því sé haldið til haga. Fjöldi þingmanna, þar á meðal sú sem hér stendur, tók undir þessa beiðni og var þetta samþykkt af þinginu. Málið er ansi brýnt og það er þess vegna sem við leitum liðsinnis forseta alls þingsins, að hann ýti á eftir því að þessu verði svarað. Það eru þúsundir kvenna úti í samfélaginu sem fá engin svör sem eru búnar að fara í sýnatöku. Það eru læknar úti í samfélaginu sem fá heldur ekki svör um niðurstöður sem eru jafnvel komnar. Þetta kom fram á fundi velferðarnefndar í morgun og við fengum heimild til þess að greina frá því á opinberum vettvangi, formlega heimild. Þetta er grafalvarlegt mál. Það snýr að heilsu kvenna en það snýr líka að hagsmunum fjölskyldna allra þessara þúsunda kvenna (Forseti hringir.) sem lifa í algjörri óvissu um heilsufar sitt. Það er óboðlegt. Við verðum að fara að fá þessa skýrslu. En það virðist vera sem að sú vinna sem nauðsynleg er sé ekki enn þá hafin.