151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

um fundarstjórn.

[13:38]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf):

Herra forseti. Hér eru grafalvarlegar upplýsingar að koma fram af fundi hv. velferðarnefndar í morgun. Breytingar á skimun á legháls- og brjóstakrabbameini kvenna hafa verið í algjörum ólestri. Ástæðan fyrir því að tekin var sú ákvörðun að breyta ferlinu hefur verið óskýr. Framkvæmdin hefur verið klúðursleg og illa skipulögð og umfram allt illa kynnt fyrir konum og aðstandendum þeirra, sem hefur valdið óöryggi, vantrausti og ótta fólks gagnvart því að fá niðurstöður úr skimunum mörgum mánuðum eftir að konur hafa farið í þær. Það að vinna við skýrslubeiðni um þetta grafalvarlega kvennaheilsumál sé ekki farin af stað og sé ekki komin á einhvern spöl eru grafalvarlegar upplýsingar sem við erum að fá hér fram af fundi hv. velferðarnefndar.

Herra forseti. Það er algjörlega óboðlegt að engin teikn séu á lofti um að hafin sé vinna við að útbúa þá skýrslu sem þingheimur hefur kallað eftir. (Forseti hringir.) Ég hvet forseta til þess að beita sér fyrir því að vinna við þá skýrslu sem þingið kallar eftir fari af stað.