Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

um fundarstjórn.

[13:42]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Já, það kom dálítið á óvart á nefndarfundi í morgun hversu illa þessi framkvæmd var undirbúin og raunverulegur skaði hefur hlotist af þeirri framkvæmd að flytja sýnin út til Danmerkur á þennan hátt. Það er gríðarlega mikilvægt að það komi í ljós að það kannaðist enginn við að hafin væri nein vinna á þessari skýrslu. Það er grafalvarlegt því að þá er annaðhvort ekki búið að hefja vinnu við skýrsluna eða að ekki hefur verið haft samband við helstu fagaðila og sérfræðinga sem þyrfti að tala við við gerð þessarar skýrslu. Hvort tveggja er mjög alvarlegt. Þannig að ég geng út frá því að forseti hafi samband við heilbrigðisráðherra og kanni hver staðan er á þessari skýrslu og við fáum svör hérna sem allra fyrst, vegna þess að við verðum að kryfja þetta mál til mergjar, ekki bara til þess að laga ástandið eins og það er núna, það er í lamasessi, heldur líka koma í veg fyrir að svona mistök gerist aftur. Þarna virðist hafa verið tekin einhver ákvörðun án gagna, án sérfræðiþekkingar og án nauðsynlegra raka um hvers vegna þessi leið var farin.