151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

um fundarstjórn.

[13:44]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Þetta mál er allt hið undarlegasta, verður maður að segja. En því miður er það þess eðlis og alvarleiki þess þannig að manni verður eiginlega orða vant. Þetta beinir líka athygli að því að stundum virðist það vera þannig að framkvæmdarvaldið, hæstv. ráðherrar, dregur úr hömlu að svara skýrslubeiðnum. Maður fær á tilfinninguna að það geti staðið í einhverju samhengi við hvert efni þeirra er og hvort það er óþægilegt fyrir viðkomandi ráðherra að svara. Það er alveg rétt að veittur er rúmur frestur til að skila skýrslum. En það veit ekki á gott þegar allar vísbendingar benda til þess að vinna við skýrsluna sé ekki einu sinni hafin þegar fresturinn er liðinn. (Forseti hringir.) Það veit ekki á gott og virðist benda til þess að það eigi að gera allt (Forseti hringir.) sem hægt er til að draga þetta eins mikið á langinn og nokkur kostur er.