151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

um fundarstjórn.

[13:45]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að draga forseta að landi að hálfu leyti. Það er rétt að hv. þm. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir var fyrsti flutningsmaður skýrslunnar. Ég hafði hins vegar forgöngu um það ræða skýrsluna við forseta, þegar við vorum farin að sakna þess að heyra nokkuð. Það eru engu að síður nokkrar vikur síðan. Fréttir sem bárust af fundi velferðarnefndar í morgun renna stoðum undir þann grun að þessi vinna sé ekki hafin, a.m.k. ekki með þeim formerkjum sem Alþingi samþykkti einróma að fela ráðherra að gera. Við bætist að þegar um er að ræða illa ígrundaða ákvörðun með óljósum ávinningi og afspyrnulélega framkvæmd er maður líka farinn að átta sig á því að þessi vinna átti sér ekki stað í upphafi þessa ferils. Ég hefði haldið að þessi skýrsla hefði bara getað verið prentuð út með því að ýta á lyklaborð af því að þær upplýsingar sem beðið er um hefðu legið til grundvallar þessari vegferð. Það var aldeilis ekki svo.

Síðan ætla ég að segja eitt: Hæstv. ráðherrar, eins og aðrir, jafnvel frekar en aðrir, (Forseti hringir.) verða að finna bakkgírinn þegar þeir eru búnir að keyra sjálfa sig og skjólstæðinga heilbrigðiskerfisins út í skurð.