151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

um fundarstjórn.

[13:47]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Ég á vissulega ekki sæti í velferðarnefnd, en þar sem hér er verið að fjalla um er auðvitað grafalvarlegt mál og ekki annað hægt en að taka undir þá hörðu gagnrýni sem heilbrigðisráðherra verður fyrir út af framgöngu í þessu máli, og bætist reyndar þar við, að mínu mati, langt syndaregister ráðherrans þegar kemur að stjórnun í heilbrigðiskerfinu. Ég hef gagnrýnt það bæði í ræðu og riti hvernig haldið er á málum þar. Við horfum til að mynda upp á þetta í liðskiptaaðgerðum þar sem hægt væri að lina þjáningar hundruða manna með því að semja við sjálfstætt starfandi fyrirtæki hér innan lands. Við horfum upp á það að hægt væri að leysa úr heilsugæsluþjónustu á Suðurnesjum með því að heimila að þar yrði starfrækt sjálfstætt starfandi heilsugæsla. Þær sem settar voru á laggirnar á höfuðborgarsvæðinu leystu hér biðlistavandamálin og juku þjónustustigið. Það eru mörg slík skref sem ég er mjög ósáttur við, að það skuli vera þessi stefnubreyting í gangi, og get bara alls ekki kvittað upp á það.