151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

768. mál
[14:03]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, um nýtingu séreignarsparnaðar. Frumvarpið er á þskj. 1338 og er mál nr. 768. Í frumvarpinu er lagt til að heimildir einstaklinga til skattfrjálsrar ráðstöfunar og úttektar viðbótariðgjalds til séreignarsparnaðar í tengslum við öflun íbúðarhúsnæðis til eigin nota og greiðslu inn á höfuðstól húsnæðislána verði framlengdar um tvö ár, eða til 30. júní 2023. Heimildirnar voru síðast framlengdar um tvö ár og munu að óbreyttu falla úr gildi 30. júní nk.

Um er að ræða tvö úrræði sem upphaflega voru lögfest árið 2014 til þriggja ára sem hluti af aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar um höfuðstólslækkun húsnæðislána. Gildistíminn hefur tvívegis verið framlengdur og í bæði skiptin um tvö ár. Seinni framlengingin var liður í þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin kynnti vegna lífskjarasamninga aðila vinnumarkaðarins í apríl 2019. Bæði úrræðin hafa því verið samfellt í gildi í tæp sjö ár og hafa um 59 þús. manns nýtt sér þau einhvern tíma á tímabilinu júlí 2014 til mars 2021 en alls hafa liðlega 82 milljarðar verið greiddir út til sjóðsfélaga. Þá er í frumvarpinu að finna afleiddar breytingar á lögum um tekjuskatt til að tryggja rétthöfum áframhaldandi skattfrelsi við nýtingu úrræðanna.

Virðulegi forseti. Talsvert hefur verið kallað eftir því að þau úrræði sem fjallað er um í frumvarpinu verði framlengd. Úrræðið hefur gefist vel, reynst mikil kjarabót fyrir þúsundir Íslendinga og stuðlað að hraðari eignamyndun einstaklinga og fjölskyldna á húsnæðismarkaði. Með tilliti til þessa er rétt að koma til móts við óskir um framlagningu þessa frumvarps. Þó er gengið út frá því, eins og verið hefur áður, að það sé tímabundið.

Að þessu sögðu legg ég til að málinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.