151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

768. mál
[14:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við hófum þessa vegferð í ástandi þar sem skuldir heimilanna voru orðnar sjálfstætt, efnahagslegt vandamál. Þær voru of miklar og við fórum í skuldaleiðréttingu annars vegar og síðan opnuðum við fyrir þennan möguleika hins vegar. Við höfum framlengt úrræðið nokkrum sinnum en á miðri leið ákváðum við að tvískipta úrræðunum. Annars vegar að vera til skamms tíma áfram með heimildina fyrir alla til að taka út skattfrjálst séreignarsparnað sinn inn á húsnæðisskuldir og hins vegar að setja varanlega í lög heimild til úttektar á séreignarsparnaði fyrir fyrstuíbúðarkaupendur sem geta þá annaðhvort safnað upp höfuðstól til fjárfestingar í eigin húsnæði eða nýtt séreignarsparnaðinn yfir ákveðinn tíma með viðmiðum fyrir hvert ár þannig að það létti þeim fasteignakaupin og hjálpi til við að lækka skuldir. Þannig má segja að við höfum tekið þá afstöðu í þessu máli að skattfrelsið sé úrræði sem við viljum nýta fyrir fyrstuíbúðarkaupendur og reyndar höfum við opnað fyrir það að þeir sem ekki hafa átt fasteign í fimm ár geti gert hið sama. En fyrir aðra sem hafa notið góðs af skattfrelsinu — eins og ég rakti í mínu máli eru 84 milljarðar þegar farnir út úr kerfinu í þeim tilgangi — höfum við litið þannig á að við höfum náð þeim meginmarkmiðum sem við stefndum að. Eftir situr þá fyrir þann hluta hópsins sem á séreignarsparnað grunntilgangurinn með séreignarsparnaðarkerfinu; að vera þriðja stoðin í lífeyrissparnaði, heimild til úttektar frá 60 ára aldri, (Forseti hringir.) sérstakar reglur gagnvart almannatryggingum o.s.frv.