151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

768. mál
[14:10]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er, með fullri virðingu, ekki viss um að ég sé miklu nær. Ég lít nú á það sem séreignarsparnað að leggja inn á húsnæðislán. Það er mjög fátt skynsamlegra, að mínu mati, að gera við peningana sína ef maður á fasteign og er með lán fyrir henni. En það er önnur ástæða fyrir því að ég spyr og hún er sú að þetta er ekki alveg gallalaust, sérstaklega þegar kemur að jafnréttismálum. Eins og kemur fram í greinargerð frumvarpsins kemur þetta ólíkum hópum misjafnlega vel, t.d. greiða karlmenn hærri iðgjöld vegna þess að þeir eru með hærri laun og þá hentar þetta þeim betur en konum, konur eru frekar á leigumarkaði o.s.frv. og vilja jafnvel frekar vera á leigumarkaði en karlar, að því er virðist. En til þess að takast á við slíkar áskoranir þá held ég að þetta úrræði þyrfti að hafa eitthvert langtímaplan. Þess vegna er ég svolítið að spyrja út í þetta vegna þess að mér finnst þetta góð hugmynd í grunninn. En það vakna spurningar eins og til að mynda hvers vegna það sé skattleysi þarna en ekki hreinlega skattlaust að fá tekjur aftur úr lífeyrissjóði. Hvernig er hægt að koma til móts við kynjahallann sem kemur úr þessu? Er það kannski leiðin til þess? En til þess að við förum út í þá umræðu þurfum við svolítið að líta til framtíðar í þessum efnum og átta okkur á því hversu lengi við ætlum að hafa þetta úrræði. Ef það verður framlengt aftur eftir tvö ár, sem ég býst eiginlega við að verði tilfellið, þá erum við svolítið búin að missa af tímanum sem við hefðum getað nýtt til að reyna að finna lausnir á þeim annmörkum sem hafa komið fram. Mér finnst þetta hafa ókosti þess að vera tímabundin ráðstöfun gagnvart skipulagi þrátt fyrir að vera sífellt framlengt og vera þess vegna í eðli sínu til lengri tíma en upprunalega var ætlað. Þetta er vandinn sem mig langar að leysa.