151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

768. mál
[14:28]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla að henda hérna fram nokkrum vangaveltum um þetta mál sem fela ekki í sér fastmótaðar eða endanlegar skoðanir heldur vil ég frekar flagga þeim svona til umræðu fyrir þingheim og almenning. Ef fólk vill skamma mig á Facebook fyrir þessar vondu skoðanir mínar þá býð ég það sérstaklega velkomið í þetta sinn vegna þess að mér finnst vera tilefni til þess þegar við lítum til lífeyrissjóðakerfisins, og sér í lagi þess úrræðis sem hér er lagt til að verði framlengt, þ.e. að hægt sé að nota séreignarsparnað skattlaust inn á húsnæðislán, að við hugsum aðeins til framtíðar.

Mér er hugleikið hvernig fólk fer að því að spara eða leggja fyrir til efri áranna í samfélögum þar sem ekki er virkt lífeyrissjóðakerfi, alla vega ekki sem fólk treystir og vill nota. Þá myndi einhver millistéttarfjölskylda kannski fjárfesta í íbúð og fjárfesta í annarri og yfir starfsævina reyna að eignast þær báðar og leigja síðan á efri árum aðra þeirra út til yngra fólks til að hafa einhverjar tekjur án þess að þurfa að vinna meðfram. Með öðrum orðum, fólk býr til sitt eigið míkrólífeyrissjóðakerfi með þessari aðferð. Annað er að þegar fólk kemst á aldur þá þarf það áfram húsnæði. Það þarf ekki endilega bíl, það fer auðvitað eftir aðstæðum fólks, það þarf ekki endilega að eiga sömu hlutina og það átti áður, aftur fer það eftir aðstæðum fólks, en það þarf þak yfir höfuðið og það fer ekki eftir aðstæðum fólks. Af þessu leiðir að mínu mati að við eigum að hugsa lífeyrissjóðakerfið sem afskaplega náið húsnæðiskerfinu, sér í lagi eignarhald fólks yfir eigin húsnæði á efri árum, ekki endilega meðan á starfsævinni stendur. Þá getur fólk oft bara leigt og haft það ágætt þannig og fullt af fólki vill reyndar leigja frekar en að eiga húsnæði og það eru ákveðnir kostir sem fylgja því, í það minnsta þegar heilbrigt leiguumhverfi er til staðar, sem ég er ekki viss um að sé tilfellið á Íslandi í dag.

Þetta úrræði sem kom hér eftir hrun 2013, ef ég man rétt, gott ef það var ekki sumarið 2013, hefur reynst mjög vel, hef ég heyrt af afspurn. Fólki sem nýtir þetta úrræði þykir mjög vænt um það vegna þess að það hjálpar því að minnka skuldirnar og búa þar með í haginn fyrir framtíðina, þessa sömu framtíð og við erum að reyna að tryggja með lífeyrissjóðakerfinu. Vextir á lánum á Íslandi eru auðvitað aðeins flóknara fyrirbæri en víða erlendis vegna þess að hér erum við með verðtryggingu, en lífeyrissjóðirnir hafa það markmið að veita 3,5% raunávöxtun, sem mörgum sem ég tala við þykir ólíklegt að sé raunhæft. En sitt sýnist hverjum um það. Mér finnst það alla vega frekar hátt og flestum finnst það en kannski tekst þeim þetta. Óháð því þá er það afskaplega mikil ávöxtun sem vænst er. Ef hún næst ekki þá segir það sig sjálft að ávöxtunin verður ekki það há nema lífeyrissjóðirnir nái markmiðum í sínum fjárfestingum sem við vitum ekkert fyrir fram hvort verður tilfellið eða ekki, en vonum auðvitað að verði. Húsnæðisverð hefur hins vegar mjög sterka langtímatilhneigingu til að fara upp á við, eðlilega. Jafnvel þó að fólki fjölgi ekki nægilega til að ýta undir hærra húsnæðisverð þarf samt sem áður alltaf að viðhalda húsnæði. Jafnvel þó að fólksfjölgun verði ekki jafn mikil í framtíðinni og hún hefur verið síðustu áratugina þá má samt búast við því að húsnæðisverð fari almennt upp á við, í það minnsta meðfram verðlagi og líklega eitthvað áfram ef eignum er vel haldið við.

Af þessu leiðir, og þetta er ástæðan fyrir því að húsnæði er notað sem ákveðin grunnfjárfesting, áhættulítil, að það er góð fjárfesting fyrir einstakling sem hefur efni á því að fjárfesta í húsnæði, hvort heldur það er eigið húsnæði eða húsnæði til útleigu fyrir yngra fólk eða fólk sem vill vera í leiguhúsnæði. Sá markaður er alveg eðlilegur. Hann er ekki eitthvert óvenjulegt fyrirbrigði eða neitt sem við eigum að forðast. Við eigum að reyna að hafa heilbrigðan leigumarkað sem tryggir réttindi fólksins sem leigir og þess háttar og þar sem reynt er að haga verðinu þannig að fólk ráði við það, það fari ekki meiri hluti teknanna í leigu eða eitthvað því um líkt. Þar getum við alveg tekið okkur á. En óháð því er líka vel þekkt að þegar sjóðir ætla að fara í mjög áhættulitlar fjárfestingar þykir tilvalið að fjárfesta í einhverju tengdu húsnæði af þessum sömu ástæðum. Þetta er áhættulítil fjárfesting sem er nokkuð víst að borgar sig til lengri tíma. En það þarf þolinmótt fjármagn þar sem ekki er verið að reyna að fá skyndigróða heldur er hugsað til lengri tíma. Það er nákvæmlega sama fjárhagslega markmiðið og við erum að setja okkur með því að greiða í lífeyrissjóð. Það er nákvæmlega sama markmið.

Þess vegna þykir mér alveg eðlilegt, með þeim formerkjum sem ég nefndi í upphafi ræðu minnar að ég er svolítið meira að deila hugsunum mínum hérna frekar en endanlegri niðurstöðu, að við hugsum um húsnæðiskerfið og lífeyriskerfið saman; að það sé hluti af sömu og sambærilegum fjárhagslegum markmiðum einstaklinga. Í þokkabót er það þannig að við ætlum ekki, geri ég ráð fyrir, að búa þannig um samfélagið að fólk sem komið er á aldur og getur ekki unnið lengur, alla vega ekki jafn mikið og áður, lendi á götunni. Nú ætla ég aðeins að spara pistilinn um hvað við erum að gera vitlaust þar. Það er margt sem við erum að gera vitlaust þar sem snertir almannatryggingakerfið. Ég ætla aðeins að bíða með það. Ég gef mér bara að metnaður okkar sé að fólk á efri árum geti hætt að vinna og samt haft það þokkalegt. Það er markmiðið með lífeyrissjóðakerfinu. Ef við náum sama markmiði með því að búa til hvata fyrir fólk til að eignast sitt eigið húsnæði skuldlaust þá er það eitthvað sem ég hygg að við ættum að skoða vandlega hvort geti verið hluti af heildarplaninu. Í stuttu máli þýðir það að hætta að framlengja sífellt þetta ákvæði sem hér er lagt til að verði framlengt og gera það varanlegt.

En það er ekki alveg gallalaust, þetta úrræði, eins og ég fór stuttlega yfir í andsvörum við hæstv. fjármálaráðherra. Það er ekki endilega mikið jafnræði í þessari útfærslu eins og hún er í dag. Sem dæmi hafa karlmenn almennt hærri laun en konur, hvort sem það er vegna þess að þeir vinna meira eða hvað. Það þýðir að þeir geta lagt meira fyrir í séreignarsparnað og geta þar af leiðandi nýtt þetta úrræði betur og meira en konur og fengið meiri skattafslátt en konur og það er ekki gott.

Það vekur líka nokkrar spurningar, t.d. hvort undir einhverjum ákveðnum tekjumörkum væri hægt að nýta hærri krónutölu frekar en endilega bara prósentu, kannski litið til persónuafsláttar í tekjuskattskerfinu eða þess háttar, þannig að fólk með lægri tekjur geti nýtt hærra hlutfall af tekjum sínum með þessum hætti og þar af leiðandi fengið alla vega sama skattafslátt og fólk með hærri tekjur. Það er ein hugmynd. Ég veit ekki hvort hún er góð vegna þess að hún hefur ekki verið skoðuð. Þetta er bara hugmynd.

Önnur hugmynd er vissulega róttækari en er eitthvað sem ég tel alveg eðlilegt að skoða af fullri alvöru, þ.e. að gera úttöku lífeyrissjóðsgreiðslna skattfrjálsar. Það er kannski sérlega róttæk hugmynd þessa dagana þegar við sjáum fram á að hlutfall eldra fólks mun hækka í mjög náinni framtíð á Íslandi, sem og reyndar víða í heiminum. Það gerir að verkum að það verður færra fólk á vinnualdri sem tekur virkan þátt í hagkerfinu og stærri hluti hagkerfisins verður fólk sem getur annaðhvort ekki unnið eða hefur takmarkaða vinnugetu í það minnsta, það er bara komið á þann aldur að það vinnur minna og vill vinna minna.

Þetta er eitthvað sem við þurfum alltaf að hugsa til lengri tíma. Það er algjört lykilatriði og er í raun og veru ástæðan fyrir því að ég kalla eftir því að við lítum til þessa ákvæðis þannig að við gerum þetta varanlegt, þó ekki væri nema til að líta á framtíðina með þeim gleraugum. Núna hefur þetta úrræði verið til staðar í átta ár, í sumar verða það átta ár. Það er ánægja með það. Það eru þekktir gallar við það, það dregur úr tekjuskatti framtíðarinnar, við erum svolítið að fá hann lánaðan frá framtíðinni eins og hefur verið nefnt. Það er þetta ójafnvægi milli kynjanna og auðvitað tekjuhópa og eflaust ójafnvægi líka bara út frá því hversu greiðan aðgang fólk hefur að þekkingunni á þessu. Það er stærri umræða um fjármálalæsi og aðgengi að fjármálalegum úrræðum, alveg sjálfstætt umræðuefni. En til að geta farið út í þessar spurningar, til að geta spurt þeirra af einhverri alvöru og þannig að við komumst á þann stað að fara að gera greiningar og velta því upp hvort þetta séu góðar hugmyndir, hvort eitthvað af þessu gangi alls ekki upp, hvort eitthvað af þessu reynist góð hugmynd þrátt fyrir að líta ekki vel út í upphafi eða eitthvað því um líkt, þá þurfum við svolítið að hugsa þetta úrræði til lengri tíma, til margra áratuga, sem hluta af þeirri þolinmóðu langtímafjárfestingu sem lífeyrissjóðakerfið á að vera og er vonandi. Þess vegna myndi ég kalla eftir því að þetta ákvæði sé hugsað þannig í okkar umræðu hér.

Þrátt fyrir þetta treysti ég mér ekki alveg til að leggja fram breytingartillögu við þetta tiltekna mál um að gera ákvæðið varanlegt vegna þess mér finnst mikilvægt að fara í þessa greiningu. Núna á þessum tímapunkti, þegar við erum sífellt að framlengja þetta ákvæði af nýjum ástæðum sem koma upp bara eftir því sem tíminn líður, erum við einhvern veginn að gera það versta í báðum heimum. Við hvorki hugsum þetta til lengri tíma né hættum þessu. Það þýðir að við erum í raun að búa til úrræði til lengri tíma sem er hugsað til skemmri tíma. Það gerir mig pínu óttasleginn vegna þess að þá búum við einfaldlega við þessi vandræði áfram sem fylgja þessu, ójafnræðið til að mynda milli kynja og tekjuhópa og við erum að fá skatttekjur lánaðar frá framtíðinni án þess að taka það með í reikninginn eða spyrja í það minnsta sanngirnisspurningarinnar: Hvers vegna er þá fólk sem ekki nýtir úrræðið að borga fullan tekjuskatt þegar það fer að nýta sín lífeyrissjóðsréttindi í framtíðinni og er búið að vera á leigumarkaði alla sína ævi þannig að það hreinlega gat ekki nýtt þetta úrræði? Þetta eru spurningar sem skipta máli, virðulegi forseti. Þá þurfum við hugsa í samhengi. Þá þurfum við að hugsa þetta til lengri tíma.

Ég kalla eftir því við hæstv. fjármálaráðherra að kanna þetta af svolítilli alvöru, þ.e., svo ég sé nákvæmari, að skoða tengsl þess að fólk hafi húsnæði til eigin nota á efri árunum og lífeyrissjóðakerfið. Þetta eru samtengd málefni að mínu mati. Í ofanálag velti ég fyrir mér hvort það geti á ákveðinn hátt verið heilbrigðara ef einstaklingar sem eru þó í þeirri stöðu að geta búið sér til eigin lífeyrissparnað, eigin „lífeyrissjóð“, geti gert það sem hluta af þessu lífeyrissjóðsúrræði. Við erum með skyldusparnað í stuttu máli vegna þess — tja, nú verð ég bara að móðga okkar kæru dýrategund — að við hugsum ekki til lengri tíma. Það er sama ástæða fyrir því og við erum með skyldumætingu í grunnskóla. Ef við erum ekki með þessa skyldu þá vitum við alveg hvað gerist; fólk mun síður mennta sig. Og ef það er ekki skyldusparnaður þá mun fólk ekki spara. Það mun alltaf finna eitthvað annað mikilvægara og það er bara hluti af okkar eðli sem dýrategundar og ekkert við því að gera annað en að hafa skyldusparnað að mínu mati. En það að við afmörkum þennan skyldusparnað við lífeyrissjóði er eitthvað sem ég held að sé gott tilefni til að endurskoða. Ef fólk er að gera eigin áætlanir fyrir efri árin og getur einhvern veginn séð fram á það, þá finnst mér það alveg duga. Einstaklingur sem er í þeirri stöðu að eignast t.d. aðra íbúð yfir starfsævina til að leigja út á efri árum eða er með slíka áætlun, eitthvað sem er öruggt og áhættulítið eins og fasteignafjárfestingar eru að jafnaði, alla vega ef vel er haldið á spilunum, ætti alveg að geta gert það í meira mæli. En ég lýk ræðu minni á því sem ég hóf hana á, þetta eru hugleiðingar. Þetta eru ekki endanlegar skoðanir, ekki fastmótaðar tillögur. En ef fólk langar til að hella sér með skömmum yfir þingmanninn sem veit ekki neitt um þessi mál þá fagna ég því.