151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

768. mál
[14:43]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. 16. maí árið 2014 var dagurinn sem sólin skein aftur við íslenskum heimilum. Það var dagurinn sem skuldaleiðréttingin svokallaða var samþykkt hér á Alþingi og hafði verið unnið að undir forystu hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þáverandi forsætisráðherra. Hluti af þeirri leiðréttingu, þeim aðgerðum, var að menn gátu notað séreignarsparnað sinn til að lækka húsnæðisskuldir sínar. Í stuttu máli sagt, herra forseti, var þetta mjög vel heppnuð aðgerð. Kannski blasa við ein áhrif þessarar aðgerðar í því sem segir í greinargerð með frumvarpinu, á bls. 3 undir liðnum Mat á áhrifum, með leyfi hæstv. forseta:

„Heildarumfang úrræðanna“ — þ.e. að nota séreignarsparnaðinn til að lækka húsnæðislán — „nemur 82 milljörðum kr. frá því að þau tóku gildi um mitt ár 2014 og 59 þúsund manns hafa nýtt sér þau einhvern tíma á tímabilinu júlí 2014 til mars 2021. Af þeirri fjárhæð hafa um 4 milljarðar kr. verið greiddir út vegna útborgunar við kaup á fasteign fyrir um 5 þúsund einstaklinga en meiri hlutinn, um 78 milljarðar kr., hefur verið greiddur inn á höfuðstól lána á tímabilinu.“

Við sjáum af þessu, herra forseti, bæði kost og löst á þessu máli sem hér er sett fram nú, þ.e. að framlengja þetta ákvæði um tvö ár. Mig langar að taka aðeins undir með hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni sem sagði í ræðu áðan að við umgengjumst þetta mál í raun eins og bæði skammtíma- og langtímaúrræði. Það má nokkuð til sanns vegar færa og ég hygg að það sé kannski ein ástæðan fyrir því að þetta úrræði hefur ekki nýst eins vel og eins mikið fyrir þá sem eru að safna fyrir fyrstu útborgun og fyrir þá sem eru að greiða inn á höfuðstól lána sinna. Þetta segi ég vegna þess að þrátt fyrir að þetta mál sé gott þá eru á því nokkrir gallar. Einn gallinn að mínu áliti er sá að hér er enn verið að miða við sömu upphæð á ári, 750.000 kr., sem er sama upphæð og var miðað við árið 2014 en verðlag í dag er náttúrlega allt annað.

Það er annað líka, herra forseti, sem ég vil benda á og hafði reyndar ekki hugleitt mjög mikið fyrr en nú, en það er sú staðreynd að samkvæmt þessu frumvarpi, og eins og lögin eru nú, má einstaklingur spara eða leggja fyrir skattfrjálst 500.000 kr. á ári en hjón 750.000 kr. Ég spyr mig: Hvers vegna er verið að gera upp á milli einstaklings og hjóna með þessum hætti? Hvers vegna mega hjón ekki leggja til milljón krónur? Það myndi að mínu áliti muna sérstaklega mikið um það fyrir hjón sem eru að safna fyrir innborgun á íbúð að geta verið með hærri tölu en 750.000 kr. Ég vona satt að segja, herra forseti, að þetta tvennt, þ.e. uppreikningur upphæðarinnar til verðlags í dag og jafnræði milli einstaklinga og sambýlisfólks eða hjóna, verði hreinlega leiðrétt í meðferð málsins í nefndinni, þannig að þetta verði að sem mestu gagni.

Við sjáum líka hvernig skuldaleiðréttingin, sem ég drap á áðan, virkaði. Bæði þessi hluti hennar og ekki síður sá hluti sem varð til þess að menn fengu endurgreiðslu eða lækkun á höfuðstóli lána sinna hefur stuðlað að því, þau ár sem síðan eru liðin, að skuldsetning íslenskra heimila hefur lengst af þeim tíma verið ein sú lægsta á Norðurlöndum. Áður en þessi aðgerð fór að hafa áhrif voru íslensk heimili hins vegar mjög skuldug. Ég hef trú á því, herra forseti, að einmitt þessi þáttur, þ.e. að íslensk heimili hafi verið minna skuldsett en heimili annars staðar, hafi og muni hafa áhrif til góðs fyrir fólk nú þegar Covid-ástandið er búið að bíta verulega og á eftir að bíta enn verr þegar menn fara á strípaðar atvinnuleysisbætur. Ég vona sannarlega að þetta úrræði og notkunin á því til þessa komi til með að fleyta mörgu heimilinu yfir þann hjalla sem Covid-ástandið vissulega er.

Heilt yfir sagt er þetta mál gott en hefur þá annmarka og galla sem ég var að skýra frá. Síðan get ég ekki sleppt því að minnast á það sem hæstv. fjármálaráðherra gerði að umtalsefni í ræðu sinni áðan þegar hann fór yfir úrræði ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum. Hann minntist sérstaklega á hlutdeildarlán en hlutdeildarlánin eins og þau eru sett upp nú, herra forseti, af félags- og barnamálaráðherra eru tálsýn eða hilling. Sú aðgerð einskorðast við 400 íbúðir á ári og skilyrðin, skorðurnar sem eru settar, eru með þeim hætti að íbúðir sem uppfylla þau skilyrði sem sett eru í lögum um hlutdeildarlán, um stærð og verð íbúða, er ekki að finna, herra forseti, hér á höfuðborgarsvæðinu. Þær eru ekki til. Það er líka vegna þess að það er gert að skilyrði og er skilyrði um það í lögunum að á höfuðborgarsvæðinu skuli þetta úrræði einungis nýtast til kaupa á nýjum íbúðum. Nýjar íbúðir á þessu verði, herra forseti, eru ekki til á höfuðborgarsvæðinu og verða ekki til á næstu misserum. Það er alveg klárt vegna þess að enn er verið að byggja hér í höfuðborginni á dýrum svæðum og enn verið að þétta byggð þar sem hlutfall lóðarverðs undir hverri íbúð er mjög hátt. Því miður er hlutdeildarlánaþátturinn hilling, hann er tálsýn, hann er kosningasprengja sem hefur ekkert eða lítið upp á sig að óbreyttu.

Að því sögðu hefði ég líka viljað fara aðeins yfir nokkuð sem er stærra mál en tengist þessu, það er uppbygging lífeyrisréttinda einstaklinga á Íslandi, sem er eins og við vitum öll með mjög misjöfnum hætti hjá þeim sem vinna á einkamarkaði og þeim sem vinna hjá ríkinu. Það stóð til og stendur vonandi enn til að jafna þann aðstöðumun töluvert. Það var t.d. eftirtektarvert — af því að ég sat í nefnd sem var að endurskoða þessi réttindi á sínum tíma undir stjórn Péturs heitins Blöndals, sem ég tók svo við þegar Pétur féll frá — að þeir hópar sem lakast standa hvað lífeyrisréttindi varðar eru yfirleitt konur. Menn segja að það komi ekki á óvart af því að konur hafa alveg fram á þennan dag yfirleitt verið með lægri laun en karlmenn. En það helgast ekki einungis af því, herra forseti, heldur einnig því að núna er á ellilífeyrisaldri mikið af konum sem unnu lítið eða ekkert úti. Þær voru það sem kallað er heimavinnandi og allir þeir áratugir sem þessar konur voru heimavinnandi eru einskis metnir.

Ég vil draga hér upp annað dæmi, herra forseti, vegna þess að það tengist hæstv. fjármálaráðherra og fjármálaráðuneytinu. Það er mál sem er vonandi að fara í gang og verður vonandi þingtekið nú. Það mál er búið að þæfa í þrjú ár en það eru málaferli sem Lífeyrissjóður bankamanna hefur reist á hendur fjármálaráðherra og ríkissjóði vegna þess að farið var verulega illa með hluta þeirra sjóðfélaga sem tilheyrðu því sem kallað hefur verið hinn gamli hluti lífeyrissjóðs bankamanna. Margar bankastofnanir hafa fallist á að leiðrétta þann mismun og það ranglæti, þar á meðal Seðlabanki Íslands og fleiri, en Landsbanki Íslands, banki allra landsmanna, sem er 98,3% í eigu þjóðarinnar allrar, hefur neitað til þessa að leiðrétta þetta mál. Og á hverjum bitnar það, herra forseti? Jú, það bitnar á konum, það bitnar á konum sem voru í framvarðasveit Landsbankans hér áður fyrr, voru þjónustufulltrúar, gjaldkerar og tóku á móti fólki í útibúum bankans, margar með mjög langan starfsferil að baki. Margar höfðu í sjálfu sér hvergi unnið annars staðar en hjá Landsbankanum. Endalok Landsbankans urðu sorgleg í hruninu, banki sem var búinn að vera starfandi síðan 1886 hrundi á örfáum misserum vegna þess að hann lenti í slæmra manna höndum, þær vendingar sem nauðsynlegar voru til að koma bankanum aftur á laggirnar og upp á lappirnar aftur höfðu það í för með sér að þarna var hlutur þessara kvenna, ekki mjög stórs hóps, fyrir borð borinn.

Ef við horfum á fjárhagslega hagsmuni sem ríkið þyrfti að verða af eða taka á sig út af þessu máli einu, þá er það, herra forseti, hreinasta skiptimynt. Það er jú eitt sem menn hagnast á með því að fara þessa leið, að nýta séreignarsparnað sinn til að borga niður húsnæðislán sín eða safna fyrir fyrsta húsnæði. Ýmsar fjárfestingar lífeyrissjóðanna sem við erum að greiða í hafa því miður ekki reynst mjög farsælar. Það er t.d. mjög eftirtektarvert að fyrir nokkrum árum heimsótti ég tæknifyrirtækið Össur, sem er að meiri hluta til í eigu danskra lífeyrissjóða, og á sínum tíma, þegar byrjað var að selja hlut í Össuri fyrir alvöru — og nú tek ég þetta bara sem eitt dæmi, herra forseti, þau eru mörg — og íslenskum lífeyrissjóðum var boðin þátttaka, þetta hefur líklega verið á árunum 2004–2006, sögðu lífeyrissjóðirnir: Nei, takk, við erum að fjárfesta í íslensku viðskiptabönkunum vegna þess að ávöxtunin þar er miklu meiri en ef við kaupum hlutabréf í Össuri. Það er auðvelt að vera vitur eftir á, herra forseti, en dæmin af þessum fjárfestingum lífeyrissjóðanna eru bara svo mýmörg að það er ekki hægt að sleppa því að segja að með því að fara þessa leið þá forðum við því alla vega að þessi hluti lífeyris okkar fari um hendur sem hafa í gegnum tíðina gert mörg fjárfestingarmistökin.