151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru o.fl.

769. mál
[14:59]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, lögum um viðspyrnustyrki og lögum um tekjuskatt, framhald úrræða og viðbætur. Frumvarpið er á þskj. 1340 og er mál nr. 769. Frumvarpið er hluti af aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að draga úr efnahagslegum áhrifum vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar og skapa öfluga viðspyrnu í kjölfar hans. Í því er fjallað um þrenns konar úrræði sem eru: lokunarstyrkir, viðspyrnustyrkir og barnabótaauki.

Í fyrsta lagi er lagt er til að umsóknarfrestur um lokunarstyrki verði framlengdur til 30. september 2021 en hann hefði að óbreyttu fallið úr gildi 30. júní nk. Nú má spyrja sig hvort þetta sé nauðsynlegt en ég vil meina að það sé útgjaldalítið að framlengja þessa tímaviðmiðun og hér er ég að sjálfsögðu að vísa til þess að við vonumst til þess að ekki þurfi að koma til lokana. En það er sjálfsagt að taka það fram að komi til frekari lokana á þessu tímabili þá gilda áfram sömu reglur um lokunarstyrki.

Jafnframt er lagt til að hámarksfjárhæðir styrkjanna verði hækkaðar úr 120 milljónum kr. í 260 milljónir. Hámarkið gildir ekki aðeins fyrir einstakar tegundir styrkja eða einstaka rekstraraðila heldur ber að leggja saman lokunarstyrki frá miðjum september 2020, tekjufallsstyrki, viðspyrnustyrki og ferðagjafir til að finna út hámarkið. Þá gildir einnig sama hámark fyrir tengda aðila í rekstri, þannig að þeir deila saman einni hámarksfjárhæð. Lagt er til að gildistakan á þessu breytta hámarki verði 1. febrúar 2021 og hún taki þannig mið af því tímamarki þegar framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hækkaði viðmiðið í tímabundnum ramma um ríkisaðstoð til stuðnings hagkerfinu vegna heimsfaraldursins.

Í öðru lagi er lagt til að gildistími viðspyrnustyrkjaúrræðisins verði framlengdur út nóvember 2021 og að heimilt verði að sækja um styrkina út árið 2021.

Jafnframt er lagt til að viðspyrnustyrkjaúrræðið verði útvíkkað á þann hátt að nýtt þrep um tekjufall bætist við lögin. Í því er gerð krafa um 40% tekjufall að lágmarki. Þannig er lagt til að vegna tekjufalls á bilinu 40–60% verði greiddur styrkur að fjárhæð 300.000 kr. fyrir hvert stöðugildi hjá rekstraraðila en að styrkurinn verði ekki hærri en 1,5 milljónir á mánuði. Lagt er til að ákvæði um þetta nýja þrep gildi afturvirkt frá því lögin um viðspyrnustyrki tóku gildi í nóvember 2020. Einnig er lagt til að fengnir viðspyrnustyrkir, sem eru vegna annarra mánaða en greiðast út í umsóknarmánuði, teljist ekki til tekna við útreikning á hlutfalli tekjufalls í umsóknarmánuði. Þetta er nú svona tæknilegt atriði sem við megum ekki misreikna okkur með. Það er mikilvægt að þetta sé alveg skýrt við tekjuviðmiðið, að fengnir viðspyrnustyrkir vegna eldra tímabils reiknist ekki sem tekjur í þeim mánuði sem er undir, en þetta er til samræmis við að tekjufallsstyrkir teljist ekki til tekna við sama útreikning.

Loks er lagt til að hámarksfjárhæðir styrkjanna verði hækkaðar úr 120 millj. kr. í 260 millj. kr. Sömu viðmið eiga við um útreikning á hámarkinu og gilda í tilviki lokunarstyrkja.

Í þriðja lagi er lagt er til að við lög um tekjuskatt, nr. 90/2003, bætist ákvæði til bráðabirgða. Þar verður kveðið á um að við álagningu opinberra gjalda árið 2021 skuli, til viðbótar almennum barnabótum, greiða sérstakan barnabótaauka að fjárhæð 30.000 kr. með hverju barni til þeirra sem fá ákvarðaðar barnabætur, tekjutengdar. Sérstakur barnabótaauki telst ekki til skattskyldra tekna og leiðir ekki til skerðingar annarra tekna, svo sem bóta frá Tryggingastofnun ríkisins. Þá verður hinum sérstaka barnabótaauka ekki skuldajafnað á móti vangreiddum opinberum gjöldum til ríkissjóðs og sveitarfélaga eða vangreiddum meðlögum. Ég verð að láta þess getið um barnabótaaukann að þessi tillaga er að koma mjög seint fram og það er stutt í álagningu. Vegna framkvæmdarinnar, útgreiðslunnar á þessum barnabótaauka, mun örugglega reyna á það hvort þingið getur verið snart í snúningum.

Virðulegi forseti. Gangi þau áform eftir að ekki komi til frekari samkomutakmarkana innan lands munu áhrifin af því að framlengja umsóknarfrest vegna lokunarstyrkja verða mjög lítil ef nokkur og a.m.k. ekki umfram það sem þegar hefur verið gert ráð fyrir. Áætlað er að kostnaðurinn við framhald og útvíkkun á viðspyrnustyrkjaúrræðinu geti numið 7,4 milljörðum kr. en sú fjárhæð er engu að síður innan fyrri áætlana um kostnað af úrræðinu. Hér verð ég að láta þess getið að gert var ráð fyrir því í bráðabirgðaákvæði með úrræðinu að við myndum meta árangurinn af því og við erum að gera það og bregðast við með þessari tillögu. Við sjáum að greiddir viðspyrnustyrkir eru undir því sem við áætluðum og við bregðumst við með því að fara í endurmat á aðgerðinni líkt og kveðið er á um í bráðabirgðaákvæðinu og útvíkkum það nú. Þetta snýst í grunninn um það að margir hafa ekki komist yfir 60% tekjufallið sem viðspyrnustyrkirnir kveða á um, eins og þeir eru í lögum í dag, og við erum þess vegna að lækka þennan þröskuld. Loks er áætlað að kostnaður við einskiptis barnabótaauka verði um 1,6 milljarðar kr.

Með framlengingu lokunar- og viðspyrnustyrkja geta fyrirtæki áfram fengið nauðsynlegan stuðning ef þörf krefur nú þegar við erum á lokametrunum í baráttu okkar við faraldurinn og efnahagsleg áhrif hans. Með þessu aukum við fyrirsjáanleika í rekstrarumhverfi fyrirtækja sem mun gera þeim enn betur kleift að taka af krafti þátt í öflugri viðspyrnu íslensks efnahagslífs á komandi misserum. Með breyttum tekjufallsviðmiðum erum við að hlusta á þær ábendingar sem komið hafa fram hjá hagsmunaaðilum, lærum af reynslunni og náum þannig til fleiri aðila sem sannarlega hafa orðið fyrir tekjufalli vegna faraldursins. Þá er með sérstökum barnabótaauka tryggður áframhaldandi stuðningur við fjölskyldur. Það hefur verið leiðarstef ríkisstjórnarinnar að með kröftugum aðgerðum verði lífskjör varin og stuðlað að skjótum og öflugum efnahagsbata. Úrræðin hafa virkað vel. Okkur hefur tekist að verja kjör heimila og veita fyrirtækjum skjól síðustu mánuði og með þessum breytingum ætlum við að standa áfram með fólki og fyrirtækjum á lokametrunum.

Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari.