151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru o.fl.

769. mál
[15:13]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég verð að svara því afdráttarlaust að ég tel að við höfum staðið við þau stóru orð sem féllu hér strax í upphafi, að nú væri rétt að gera meira en minna. Það er sjálfsagt hægt að hafa ólíka sýn á það hversu mikið er nóg en við höfum mælingar. Við getum mælt ánægju með aðgerðirnar. Við getum skoðað, í nýjustu skýrslunni sem fjármála- og efnahagsráðuneytið gaf út um virkni úrræðanna og nýtingu þeirra, hvernig dreifingin hefur verið, hversu margir hafa notið góðs af úrræðunum, hversu mikil dreifing er á milli stærðar fyrirtækja, hvaða greinar atvinnulífsins njóta helst stuðnings. Þegar við speglum þá niðurstöðu við þær greinar sem eru í mestum vanda sjáum við að það er alger samsvörun þar á milli. Við erum sem sagt að ná til þeirra fyrirtækja sem eru í mestum vanda. Við erum ekki bara að standa með stórum fyrirtækjum heldur líka með litlum og einyrkjum. Það er ágætisdreifing í útgreiðslu styrkjanna. Í því máli sem við ræðum hér erum við að hækka hámarksfjárhæðirnar til samræmis við svigrúmið sem gilt hefur á Evrópska efnahagssvæðinu um ríkisstyrkjareglur og ég tel að við séum að gera rétt í því. Ég tel sömuleiðis að það sé ekki til vitnis um að við séum í einhvers konar bútasaumi þó að við leyfum okkur að gera aðlaganir og breytingar á úrræðunum eftir því sem aðstæður kalla á hverju sinni. Þvert á móti finn ég ekki annað en að því sé fagnað mjög að við ákváðum að stíga þetta skref núna. Þetta hefur mælst vel fyrir og ég er algerlega sannfærður um að þetta mál er jákvætt og mun stuðla að því sem að er stefnt, bæði skjóli og sterkari viðspyrnu.