151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[15:31]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

Frumvarpið er lagt fram þar sem áfram ríkir nokkur óvissa á innlendum vinnumarkaði vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Í ljósi þess eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á fyrrnefndum lögum sem ætlað er að bregðast við þeim áhrifum sem heimsfaraldurinn hefur haft á vinnumarkaðinn. Breytingunum er jafnframt ætlað, líkt og fyrri aðgerðum stjórnvalda, að draga úr tjóni vegna veirunnar og tryggja að neikvæð áhrif hennar á atvinnulíf og efnahag heimilanna verði sem minnst.

Með frumvarpinu er lagt til að ónýttur réttur til tekjutengdra atvinnuleysisbóta umfram þrjá mánuði eða í allt að sex mánuði falli ekki niður 1. október næstkomandi eins og gert er ráð fyrir í lögum um atvinnuleysistryggingar. Þess í stað er lagt til að þeir atvinnuleitendur sem uppfylla skilyrði fyrir tekjutengdum atvinnuleysisbótum í sex mánuði fái tækifæri til að fullnýta þann rétt til 1. febrúar 2022.

Ég tel þetta afar mikilvægt þannig að þeir atvinnuleitendur sem fá tímabundin tækifæri til þátttöku á vinnumarkaði á komandi mánuðum í tengslum við átakið Hefjum störf, áður en þeir hafa fullnýtt rétt sinn til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í allt að sex mánuði, geti áfram átt möguleika á að nýta rétt sinn til slíkra bóta þurfi þeir að nýju að fá greiddar atvinnuleysisbætur eftir að tímabundinni þátttöku á vinnumarkaði lýkur.

Virðulegi forseti. Ljóst þykir að þau úrræði sem stjórnvöld hafa gripið til fram til þessa vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar hafa nýst illa þeim einstaklingum sem voru án atvinnu í upphafi faraldursins og voru enn að fá greiddar atvinnuleysisbætur 1. maí síðastliðinn þar sem þeir hafa átt í erfiðleikum með að fá tækifæri á vinnumarkaði að nýju meðan á faraldrinum hefur staðið.

Hér er því lagt til að umræddum einstaklingum verði greiddur sérstakur 100.000 kr. styrkur miðað við að viðkomandi atvinnuleitandi hafi að fullu verið tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins á tilteknu tímabili en gert er ráð fyrir að fjárhæðin lækki til samræmis við lægra tryggingahlutfall viðkomandi innan kerfisins.

Þá er hér lagt til að skýrt verði kveðið á um í lögunum að þeir sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins og hafa stundað nám samhliða þátttöku á vinnumarkaði geti lokið þeirri námsönn sem þegar er hafin við starfslok eða þegar þeir missa starf sitt að hluta í stað þess að þeir þurfi að hætta námi til að geta nýtt rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Ekki er um efnisbreytingu að ræða frá gildandi lögum en mikilvægt þykir að skýrt sé að þetta eigi við óháð því hvenær viðkomandi einstaklingar ákveða að sækja um atvinnuleysistryggingar og nýta þannig rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins.  

Virðulegi forseti. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að framlengt verði það tímabil sem íþróttafélög geta sótt um greiðslur til Vinnumálastofnunar á grundvelli laga um greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs. Er þetta lagt til þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir að íþróttastarf geti farið fram með hefðbundnum hætti seinni hluta árs 2021 í samræmi við áætlun stjórnvalda um afléttingu sóttvarnaráðstafana.

Að mínu mati er afar mikilvægt að framlengja umrætt tímabil þannig að úrræðið standi íþóttafélögum áfram til boða út þetta ár komi til þess að herða þurfi sóttvarnaráðstafanir að nýju. Ég vona þó svo sannarlega að það komi ekki til þess að íþróttafélög þurfi að nýju að grípa til þessa úrræðis enda afar mikilvægt að íþróttastarf í landinu geti vaxið og dafnað óhindrað. Um það held ég að við getum öll verið sammála.

Virðulegi forseti. Sem betur fer sjáum við fram á bjartari tíma með fjölgun bólusetninga og vonandi munu ýmsar takmarkanir sem gripið hefur verið til vegna sóttvarnaráðstafana brátt heyra sögunni til. Þrátt fyrir það ríkir enn óvissa og við vitum ekki fyrir víst hvort við erum endanlega komin fyrir vind. Ég legg því mikla áherslu á að frumvarpið verði samþykkt hér á Alþingi sem allra fyrst.

Að lokinni þessari umræðu, virðulegi forseti, legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar Alþingis.