atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.
Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Ríkisstjórnin hefur í öllum sínum aðgerðapökkum verið að koma með félagslegar aðgerðir, ekki eingöngu aðgerðir fyrir fyrirtæki. Það hefur sérstaklega verið eftir því tekið hvernig stjórnvöld hafa haldið á þessu, til að mynda í skýrslum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, að það væri eftirtektarvert að við skyldum alltaf vera að taka bæði utan um fólk og fyrirtæki. Það hefur auðvitað verið misjafnt. Þetta eru orðnir allmargir aðgerðapakkar og það hefur verið með misjöfnum hætti hvernig tekið er á málum hverju sinni vegna þess að við erum að bregðast við og reyna að þróa þessa pakka út frá aðstæðum faraldursins hverju sinni. Það hafa verið samþykktar hér á Alþingi sérstakar greiðslur bæði til örorkulífeyrisþega og til aldraðra, gerðar breytingar á atvinnuleysistryggingakerfinu og fleira. Núna erum við með þessa tillögu um 100.000 kr. eingreiðslu til þeirra sem hafa verið atvinnulausir síðan fyrir Covid-faraldurinn. Við erum að einbeita okkur að þeim núna, m.a. vegna þess að við teljum að það þurfi að taka betur utan um þann hóp. Þannig að á hverju stigi málsins höfum við verið að vakta aðstæður. Við erum að bregðast við hverju sinni. Hv. þingmaður gefur í skyn að við höfum verið að skilja einhverja hópa eftir. Þvert á móti höfum við verið að taka utan um mjög marga hópa og sá hópur sem við erum að leggja til að verði tekið utan um núna eru þeir sem hafa verið atvinnulausir í 14 mánuði eða lengur. Ég vonast til þess að þingið samþykki þá aðgerð vegna þess að ég held að hún sé gríðarlega mikilvæg.