151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[15:39]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. félags- og barnamálaráðherra fyrir svörin en þau eru heldur rýr vegna þess að það er staðreynd að einn hópur hefur algerlega setið eftir, hefur ekki fengið neitt. Það eru eldri borgarar, verst settu eldri borgararnir. Ég hef ekki séð einn einasta pakka fyrir þá, ekki eina einustu eingreiðslu, ekki eina einustu skattfrjálsu greiðslu. Þið eruð kerfisbundið að taka einn hóp út í staðinn fyrir að koma með einn heildarpakka og hætta þessari mismunun. Það sem sýnir auðvitað hversu fáránlegt þetta kerfi er orðið, eins og ég hef bent á, er að við skulum vera með allar þessar tölur: Öryrkjar og eldri borgarar 260.000–270.000 kr., atvinnuleysisbætur 307.000 kr., lágmarkslaun 350.000 kr. og svo komið þið með pakka upp á 472.000 kr. plús lífeyrissjóð. Ef þið viljið æra óstöðugan og koma fólki til að reita hár sitt yfir þessu — af hverju lenti ég ekki inni í þessum pakka, af hverju fékk ég ekki þetta eða hitt? Þarna er bara orðið happa og glappa hverjir fá það besta og hverjir það versta og það eru yfirleitt þeir verst settu sem gleymast. Það er auðvitað alltaf gott að hjálpa fólki en eins og ég hef bent á, í samhengi við þessar 472.000 kr. og 11% lífeyrissjóð, þá er hópur sem dettur þar fyrir utan, hópur sem þarf virkilega á þessu að halda. En einhverra hluta vegna viljið þið ekki taka þá inn í neina pakka og ekki þennan pakka heldur. Hvers vegna ekki?