151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[15:41]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á þessu kjörtímabili voru samþykkt lög um sérstakan félagslegan stuðning til þeirra hópa eldri borgara sem hafa bágust kjörin, þau voru samþykkt hér og við erum byrjuð að vinna eftir þeim. Við hv. þingmaður höfum áður skipst á skoðunum í óundirbúnum fyrirspurnum um hversu mikilvæg sú löggjöf er. Ég verð bara að vera algerlega ósammála hv. þingmanni um að við höfum skilið stóra hópa eftir í íslensku samfélagi í kórónuveirufaraldrinum. Það er einfaldlega rangt. Kerfin okkar hafa gripið og haldið utan um þá einstaklinga sem hafa orðið verst úti. Atvinnuleysistryggingarnar eru hugsaðar til að grípa það fólk sem misst hefur vinnuna. Það er öryggisnet samfélagsins þar sem við grípum utan um einstaklinga sem verða fyrir því að verða atvinnulausir. Það er það sem við erum að ræða hér núna, að þétta það öryggisnet og koma til móts við þá einstaklinga sem hafa verið atvinnulausir hvað lengst. Síðan höfum við verið með fjölþættar félagslegar aðgerðir gagnvart hópum sem hafa verið einangraðir í íslensku samfélagi, hafa orðið fyrir félagslegri einangrun o.s.frv., hvort sem það er fatlað fólk, örorkulífeyrisþegar, aldraðir, börn, ungmenni, heimilislausir, fólk í viðkvæmri stöðu. Við höfum verið með félagslegar aðgerðir til þess að halda utan um þann hóp einnig.

Það má alltaf segja að það hefði mátt gera meira en ég hef sagt það áður og mun segja það hér líka: Það er mjög ósanngjarnt að segja að ríkisstjórnin hafi ekki gripið þessa hópa vegna þess að við höfum verið með fjölþættar félagslegar aðgerðir, fjölþættar vinnumarkaðsaðgerðir sem miða að því að grípa fólk og fjölskyldur og í langflestum tilfellum hefur það tekist. Eru einhver dæmi um að það hafi mistekist? Já, ugglaust. En það er líka bara mannlegt og því miður eru kerfin okkar þannig og þá þurfum við að bæta þau. Það erum við að gera hér með þessum 100.000 kalli og við þurfum að gera þetta áfram og fylgja fólkinu okkar eftir. Það hefur ríkisstjórnin gert, það ætlar hún sér að gera og mun gera áfram.