151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald o.fl.

755. mál
[16:21]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég ætlaði bara aðeins að koma hingað upp til að fagna þessu frumvarpi að því leyti til að þarna er verið að einfalda regluverk og koma til móts við þá sem standa í rekstri, eins og ráðherrann sagði, í ferðamannabransanum og veitingabransanum og náttúrlega þá sem hafa hug á því að hefja slíka starfsemi. Þetta hljómar mjög vel og hleypir líka byr í þau segl að fara í frekari aðgerðir gagnvart öðrum atvinnuvegum þar sem hægt er að hugsa sér að einstaklingar vilji hefja rekstur. Það er oft þannig að þegar ungt fólk eða bara einstaklingur hefur hug á því að hefja sjálfstæðan rekstur, eða einstaklingar, hvort sem þeir eru fleiri en einn eða tveir eða þrír, þá eru oft við regluverkið og allt í kringum umsóknir og umgengni það háir veggir að viðkomandi hætta við, missa móðinn. Það kostar of mikið að byrja og fólk leitar sér að annarri vinnu eða fer jafnvel bara á atvinnuleysisskrá. Þetta finnst mér gleðitíðindi. Frumvarpið er, eins og kemur þarna fram, um veitingaþjónustu og ferðamannastaði og allt í kringum það. Það er það sem við erum að bíða eftir að fari í gang aftur og er þegar farið í gang nú þegar ljósið hinum megin við göngin logar skærar vegna betra ástands í Covid-faraldrinum. Maður hefur væntingar til þess að þessi bransi komist í gang og fleiri geti haslað sér völl og þeir sem fyrir eru á fleti sjái bjartari framtíð.

Frumvarpið er, eins og kom fram í máli ráðherrans, á leiðinni til atvinnuveganefndar þar sem sá sem hér stendur á sæti og fljótt á litið get ég ekki séð annað en að þetta geti fengið fína afgreiðslu en það á eftir að koma í ljós. En eins og þetta blasir við mér svona við fyrsta lestur þá fagna ég frumvarpinu.