151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[16:26]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Við höldum hér áfram með málefni innflytjenda. Það er best að fara aftur þangað sem frá var horfið. Þegar við ræðum þessi mál er mikilvægt að við ræðum þau opið og við verðum að geta skipst á skoðunum. Það gagnast ekki umræðunni að jaðarsetja þá sem vilja stíga varlega til jarðar. Hér hefur ítrekað verið bent á að nágrannaþjóðir okkar, Svíar og Danir, hafa breytt fyrri nálgun sinni. Samfélög þessara þjóða náðu ekki og ná ekki enn að sameina alla þá sem búa í þessum löndum. Það er ekki gott að missa samfélag í sundrungu og upplausn. Það er einmitt það sem við höfum verið að benda á og þess vegna þurfum við að vanda til verka.

Við erum með þessu máli að taka upp stefnu í málaflokki sem aðrar þjóðir hafa viðurkennt að gangi ekki. Í Svíþjóð hefur myndast grundvöllur fyrir því að innflytjendamál verði stóra kosningamálið á næsta ári. Sumum Svíum finnst að þeir hafi orðið að gefa eftir ýmis gildi samfélagsins á sviði lífshátta og jafnréttis og samkvæmt fréttum frá Svíþjóð geta konur átt það á hættu að verða fyrir aðkasti.

Annað atriði sem mér finnst merkilegt og var einnig í fréttum er að það komst upp að PISA-könnunin í skólum í Svíþjóð árið 2018 hefði ekki verið framkvæmd með fullnægjandi hætti. Svíþjóð kom mjög vel út í könnuninni og stjórnin hrósaði sér og lét sem allt væri í lagi. En nú hefur Ríkisendurskoðun þar í landi sýnt að tuttugasti hver nemandi var látinn sleppa prófunum og það sem verra er að flest voru það börn innflytjenda. Það hefði gefið allt aðra mynd af skólanum ef þau hefðu verið með. Þetta speglar ákveðin vandamál og segir okkur að ekki hafi verið vandað til verka. Þess vegna virðist Svíar vera komnir á þann stað sem þeir eru nú.

Veltum fyrir okkur hverju er um að kenna. Getur verið að innflytjendur vilji ekki taka þátt í samfélaginu eða að samfélaginu hafi mistekist að standa vel að aðlögun innflytjenda? Við getum í það minnsta þakkað fyrir að þeir virðast vera að breyta um stefnu. Hugsanlega ætla þeir síðan að stíga varlega til jarðar og gera hlutina með sem bestum hætti. Það hefur verið rætt að farsælast sé að veita aðstoð sem næst heimilum fólks eða í öllu falli að sjá til þess að fólk komist heim til sín á ný. En sérstaklega skiptir það máli fyrir þá sem ekki komast heim til sín að vel sé staðið að því að þeir hafi tækifæri til að aðlagast menningunni í nýja landinu sem þeir ákveða að setjast að í. Það er nefnilega eitt að setja stefnu en það verður líka að vera innstæða fyrir stefnunni.

Við höfum ekki enn fengið svokallaðar sviðsmyndir, hvernig hlutirnir geti litið út, hversu mikill kostnaður hljótist af þessu. Verkefnið er til tilraunar í eitt ár, hvað verður úr fólki eftir eitt ár? Ýmsar spurningar vakna. Er búið að skoða hvernig fólk muni velja búsetu? Getur verið að fleiri kjósi eitt sveitarfélag umfram annað? Er skólakerfið nægjanlega vel undirbúið? Við vitum að rúmlega 50% af ráðstöfunartekjum sveitarfélaga fara til skólamála. Er heilbrigðiskerfið undirbúið? Er stoðþjónusta í lagi? Er velferðarþjónusta tryggð? Samband íslenskra sveitarfélaga hefur nefnt að þetta allt sé alls ekki nógu skýrt. Ég verð því að leggja það til að málið fari aftur til hv. velferðarnefndar að lokinni umræðu hér, þ.e. milli 2. og 3. umr.