151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[16:31]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Við ræðum þetta mál dálítið opið og pössum að jaðarsetja engan. Ég velti því fyrir mér hvort samræmd móttaka flóttafólks og upplýsingaöflun geri það að verkum að við missum allt í sundrungu og upplausn, eins og hv. þingmaður orðaði það. Féll kerfið hjá nágrannaþjóðum þegar tekin voru upp fjölmenningarsetur til að samræma móttöku flóttafólks eða upplýsingar voru gerðar aðgengilegar? Er svona samræming í rauninni ekki tækifæri til hagræðingar og til að spara í málaflokknum? Ég átta mig ekki alveg á umræðunni hérna undanfarinn sólarhring eða rúmlega það, hvað er að því fyrirkomulagi að samræma móttökuna svo þetta sé ekki gert á mismunandi hátt, það sé óhagræði á einhverjum stöðum og vanti upplýsingar og þar af leiðandi kannski brotið á réttindum einhverra af því að ekki er farið eins að á mismunandi stöðum. Er þetta ekki einmitt jákvætt og gefur möguleika til hagræðingar? Til hvers að tala um þetta mál í svona langan tíma ef þetta er ekki flóknara en það í rauninni, tækifæri til hagræðingar? Ég skil ekki hvernig þetta fer í áttina að einhverju sem fór úrskeiðis í nágrannalöndum okkar.