Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[16:36]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég skil hv. þingmann ágætlega, en ég er ekki alveg viss um að hann hafi náð inntakinu í ræðum mínum miðað við hvernig hann spyr. En ef við ætlum að taka á móti öllum, sem mér heyrist hv. þingmaður vera að leggja til, það væri best að gera það, þá þurfum við að geta staðið við það ef það er einhver stefna. Málið er að það er bara engin stefna. Byrjað er á að setja á stofn tilraunaverkefni til eins árs, setja tvo starfsmenn sem eiga að sinna því hlutverki og það er alveg gefið að það mun ekki ganga. Á sama tíma höfum við ekki hugmynd um hvert framtíðin mun leiða okkur. Við höfum ekki hugmynd um hvort heilbrigðiskerfið getur staðið undir þessu, hvort sveitarfélögin geta staðið undir þessu. Þar sem við höfum í höndunum er umsögn, sem ég fór aðeins yfir áðan, frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga þar sem talað er um ófyrirséðan kostnað og að útgjöld muni aukast. Það er ástæðan fyrir því að ég kalla þetta aftur inn til nefndar vegna þess að mér þætti gott að vita hvað er ófyrirséður kostnaður, í hverju útgjöldin muni aukast, vegna þess að þetta snýst líka um krónur og aura, því miður. Þess vegna verðum við, ef við ætlum að fara þessa leið, að vita hvert við ætlum að stefna. Það þýðir ekki að setja verkefni niður og setja það samt ekki niður af því að þetta er kallað tilraun.