151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[16:44]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég er kominn í þennan ræðustól til þess að skila skömminni. Undir liðnum störf þingsins í morgun steig á stokk hv. þm. Vinstri grænna, Lilja Rafney Magnúsdóttir, og lagði út af umræðu sem hún tók ekki þátt í, sem hún sat ekki undir og ásakaði okkur Miðflokksfólkið um að sá fræjum ótta. Ekkert er fjarri lagi, herra forseti, vegna þess að allir þeir sem hafa hlustað á alla þessa umræðu, sem nú hefur staðið í u.þ.b. átta klukkustundir, stysti sólarhringur sem ég man eftir, vita að þar hefur eingöngu verið rætt um þær staðreyndir sem við þekkjum, þær áhyggjur sem við höfum og ekki hefur verið gerð tilraun til að flækja þetta mál eða flækja málefni hælisleitenda eða þeirra sem leita að alþjóðlegri vernd inn í heim ótta eða nokkurs annars.

Við höfum einfaldlega sagt: Ísland tekur allt aðra stefnu en nágrannalöndin sem hafa 35 ára reynslu af því að gera hlutina rangt en eru nú sem óðast að vinda ofan af því og ætla að gera hlutina með öðrum og betri hætti, þ.e. þeir ætla að efla móttöku flóttamanna og koma í veg fyrir þá sundurgreiningu sem verið hefur í þessum þjóðfélögum í 35 ár og ætla þess vegna væntanlega að reyna að sjá til þess að það ágæta fólk sem ratar hingað norður eftir geti blómstrað í sínu nýja þjóðfélagi og orðið nýtir og góðir þjóðfélagsþegnar.

En að koma hér, herra forseti, eftir að hafa ekki þorað að taka þátt í umræðunni, eftir að hafa ekki hlustað á hana og lagt út af henni með þessum hætti, er óvenjuaumt. Þess vegna er ekki hægt að láta það liggja óbætt. Að koma upp undir liðnum störf þingsins, þar sem menn vita að þeir fá ekki mótbárur, er aumt, herra forseti, verulega aumt.

Að þessu sögðu þá hefur þessi umræða verið gagnleg. Hún hefur byggst á staðreyndum. Hún hefur byggst á því sem við vitum um nágrannalöndin og hún hefur byggst á því sem við vitum um hugsanlega þróun hér. Hún hefur byggst á því að við vitum ekki hvað það frumvarp sem hér er til umræðu mun kosta. Ekki hefur farið fram gaumgæfileg kostnaðargreining á því og þess vegna er það mikið fagnaðarefni að frumvarpið skuli nú fara aftur til nefndar milli 2. og 3. umr. til að hægt sé að leiða fram í dagsljósið raunverulegan kostnað af því að gera þá breytingu sem lögð er til í frumvarpinu. Það var í sjálfu sér það eina sem fyrir okkur Miðflokksfólkinu vakti, þ.e. að samþykkja ekki mál sem við vitum ekki hvað kemur til með að kosta.

Sem betur fer, og ég er þakklátur fyrir það, herra forseti, hefur meiri hlutinn í þinginu samþykkt að þessi vegferð verði farin, þ.e. að málið verði tekið til nefndar aftur og kostnaðurinn gaumgæfður. Þá getum við lagt mat á það hversu skynsamlegt eða ekki þetta mál er, hversu gæfulegt eða ekki það er, þegar við höfum allar staðreyndir málsins á borðinu. Það er það sem við höfum alltaf kappkostað, Miðflokksfólkið, að taka vandaðar ákvarðanir að lokinni ítarlegri umræðu um flókin mál sem krefjast úrlausnar.

Herra forseti. Þetta er það sem ég vildi sagt hafa og ég vænti þess að ræður mínar hér við 2. umr. verði ekki fleiri nema eitthvert sérstakt tækifæri geri það nauðsynlegt. En það var ekki hægt að sitja þegjandi undir því sem gerðist hér í morgun.