151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[16:50]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Það sem ég vildi koma inn á áður en málið fer aftur til nefndar, sem ég tel mjög mikilvægt og gott að sé gert, eru fjármálin sem lúta að þessu frumvarpi. Það er mjög mikilvægt að farið verði vandlega yfir það hver útgjöldin koma til með að vera í raun. Eins og það lítur út núna er einungis horft til Fjölmenningarsetursins sem slíks, þ.e. fjölgunar starfa þar um tvö stöðugildi, að mig minnir, sem kostar 23,7 millj. kr. Hins vegar er með þessu frumvarpi verið að senda þau skilaboð út að þjónustan verði sú sama fyrir kvótaflóttamenn og hælisleitendur og það er grundvallarbreyting. Það er rétt að koma því á framfæri. Það mun þýða að þjónusta sem er veitt fyrir hælisleitendur verður enn betri en hún er í dag. Það berst náttúrulega út og þeir sem eru á faraldsfæti hvað þetta varðar fá þær fregnir fljótt að hér sé veitt betri þjónusta en áður. Það mun þýða aukinn fjölda umsókna. Það mun síðan þýða aukin fjárútgjöld. Þetta þarf að fara yfir. Það þarf að koma með einhverjar sviðsmyndir um hvað aukinn fjöldi umsókna komi til með að kosta. Það þarf að ræða í nefndinni og setja upp sviðsmyndir.

Síðan vil ég vekja athygli á því sem ég kom aðeins inn á í gær, umsögn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Það er nauðsynlegt að ræða hana líka innan nefndarinnar vegna þess að sambandið vekur sérstaklega athygli hennar, eins og segir í umsögninni, á því að verkefni sem tengjast þessu samræmda móttökukerfi flóttafólks, sem verið er að leggja til með þessu frumvarpi, eru verulega vanfjármögnuð miðað við þær væntingar sem uppi voru þegar hafist var handa við innleiðinguna. Hér er það bara svart á hvítu frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og það á jú að sinna þessum verkefnum í samstarfi við sveitarfélögin. Sveitarfélögin hafa verulegar áhyggjur af því að þetta sé vanfjármagnað. Það þarf að fara vandlega yfir. Þau segja hér áfram í umsögn sinni að fjármagn hafi verið skorið við nögl í samningum félagsmálaráðuneytisins við móttökusveitarfélög. Það er rétt að hafa í huga að þetta kemur fyrst og fremst til með að hvíla á sveitarfélögunum. Ef þau fá ekki þá fjármuni sem ætlaðir eru í þetta þá sé ég ekki alveg hvernig þau geta staðið straum af því. Þetta verður að fara vandlega yfir. Svo bæta þau hér við að ekki virðist í ráði að bæta sveitarfélögum upp þau viðbótarútgjöld sem hljótast af auknu álagi á skólakerfið og innan barnaverndar. Þá virðist ekki vera reiknað með því að heilbrigðiskerfið eigi aðkomu að samræmdu móttökukerfi. Þetta eru mjög alvarlegar athugasemdir sem sambandið er að koma á framfæri. Svo segir áfram:

„Um þessar mundir er Ísland að taka hlutfallslega á móti flestu flóttafólki í samanburði við Norðurlöndin.“ — Þetta höfum við rakið í okkar málflutningi, Miðflokksþingmenn. — „Samfélagið og innviðir þess þurfa að vera í stakk búnir að veita þann stuðning og þjónustu sem hinn fjölbreytti hópur flóttafólks á tilkall til.“

Verið er að auka þá þjónustu en við sjáum að fjármunirnir liggja ekki fyrir. Það er náttúrlega ekki hægt og það er ábyrgðarhluti að koma með frumvarp sem er ekki fjármagnað nema að verulega litlum hluta, þ.e. sem varðar þessi tvö stöðugildi hjá Fjölmenningarsetrinu sem sér um að veita upplýsingar. Það sér ekki um að veita þá þjónustu sem sveitarfélögin veita. Og sveitarfélögin kvarta hér yfir því að ekkert fjármagn liggi fyrir í þessu frumvarpi, eins og segir í umsögninni, þetta sé verulega vanfjármagnað.

Herra forseti. Ég vænti þess að velferðarnefnd fari vandlega yfir þennan þátt málsins og setji auk þess upp einhverjar sviðsmyndir um það hvað ætla megi að flóttamönnum fjölgi mikið, verði þetta frumvarp að lögum, sem þýðir að verið er að veita mun betri þjónustu en við veitum í dag. Við veitum góða þjónustu í dag, við gerum það. Þetta snýst því um það að mínu mati, komandi úr fjárlaganefnd, (Forseti hringir.) að það liggi algerlega ljóst fyrir hvað þetta komi til með að kosta í heildina. Ég held að sá kostnaður komi til með að verða verulegur og það er eitthvað sem við eigum ekki til. Við erum orðin það skuldsett, ríkissjóður, að það gengur ekki upp að mínu mati að bæta ofan á það einhverjum milljörðum.