151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[16:56]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég sagði það í einni af mínum ræðum varðandi þetta mál að ég gerði ekki athugasemdir við breytt hlutverk Fjölmenningarseturs. Það er í sjálfu sér að gera ágæta hluti. Þessi stofnun á að vera tengiliður milli flóttafólks, sveitarfélaga og Vinnumálastofnunar. Það á að auka yfirsýn yfir málaflokkinn og að sama skapi á ákvarðanataka og þjónusta að vera skilvirkari. Þessi stofnun hefur ráðgjafarhlutverk. Ég geri ekki athugasemdir við þetta. Ég held að Fjölmenningarsetur sé að gera ágæta hluti. En það er hins vegar búið að setja þetta fyrst og fremst í þennan búning, þ.e. að þetta sé aðalatriði málsins. Ég tel svo ekki vera. Ég tel að aðalatriði málsins sé einmitt grundvallarbreytingin. Það er verið að setja þetta í þann búning að þetta snúist um upplýsingar en grundvallarbreytingin er sú að það er verið að setja alla undir sama hatt sem koma til landsins, hvort sem þeir koma á eigin vegum eða sem kvótaflóttamenn og annað slíkt. Það kostar meiri þjónustu. Ég hef áhyggjur af því að það muni þýða að hingað komi mun fleiri vegna þess að það er bara einu sinni þannig að menn vita nákvæmlega hvar besta þjónustan er. Þegar verið er að draga úr þjónustunni og herða reglurnar í nágrannalöndunum okkar eins og í Svíþjóð og Noregi og Danmörku, sem við höfum rakið í okkar ræðum, þá fara menn að horfa eitthvert annað. Þá er Ísland náttúrlega orðið miðpunktur á kortinu, a.m.k. hvað varðar Norðurlöndin, auk þess sem það hefur verið staðfest af hálfu dómsmálaráðuneytisins að Ísland veitir bestu þjónustuna í Evrópu hvað varðar þjónustu við hælisleitendur. Þannig að ég held að það sé alveg ljóst að þetta muni fela í sér aukinn fjölda umsókna og það þýðir aukin útgjöld. Ég held að hv. þingmaður, sem situr með mér í fjárlaganefnd og hefur margt gott fram að færa, (Forseti hringir.) hljóti að sjá að það er mjög lítið fjármagn til þess að bæta við eitthvað sem getur vaxið gríðarlega. (Forseti hringir.) Það þarf a.m.k. sviðsmyndir um það hvaða afleiðingar þetta getur haft í för með sér (Forseti hringir.) og það er hlutverk nefndarinnar að fara vandlega yfir það og svo tökum við þá umræðu þegar það er komið.