151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[16:59]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Já, ég heyri alveg hvað hv. þingmaður er að segja. Hann er að hrósa Fjölmenningarsetrinu á Ísafirði fyrir góða vinnu og góð störf og vill síðan minnka þjónustuna. Hvort er það? Er þetta góð þjónusta sem er gott að veita eða eigum við að skófla þjónustunni út og sinna ekki þeim skyldum sem við höfum gengist undir samkvæmt alþjóðasamningum? Ég átta mig ekki alveg á því hvert markmiðið er þegar allt kemur til alls. Ef við ætlum að tala um fjármögnun á þessu þá erum við að tala um fjármálaáætlun fyrir næsta ár, því að fjármagnið sem er undir í þessu frumvarpi er þegar komið hér inn, í það tilraunaverkefni sem var í fyrri fjármálaáætlun og fjárlögum, og það dugar fyrir þetta ár. Framhaldið er í næstu fjármálaáætlun og þar þurfum við væntanlega að rífast um ýmislegt því að þar vantar allar kostnaðaráætlanir frá A til Ö. Ég hlakka til umræðunnar um það, ef það fer rúmlega heill þingdagur í að kvarta undan skorti á kostnaðargreiningu á svona frumvarpi þar sem á að veita rosalega góða þjónustu — en á samt að skerða. Sér hv. þingmaður mótsögnina í þessu eða er ég eitthvað á villigötum varðandi það sem hann var að segja?