151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[17:00]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Við þekkjum ágætlega hvernig verklagið hefur verið í þessum málaflokki. Á síðasta ári var fjárveiting til þessa málaflokks um 4 milljarðar kr. og síðan gerðist það bara í fjárlagavinnunni í desember, eins og hv. þingmaður þekkir ágætlega, að það kom beiðni um 400 millj. kr. aukafjárveitingu í þennan málaflokk og hún var afgreidd eins og ekkert væri. Engin gagnrýnin umræða fór fram um það. Ég flutti hér breytingartillögu um að þessi greiðsla kæmi ekki til framkvæmda vegna þess að það væri fækkun á umsóknum hælisleitenda á síðasta ári vegna veirufaraldursins. Sú tillaga var felld. Miðflokkurinn var eini flokkurinn sem studdi þá tillögu. Ég hefði kosið að hv. þingmaður, sem fer nú vel ofan í hlutina í fjárlaganefnd og talar fyrir ráðdeildarsemi í fjármálum ríkisins, hefði komið með mér í þá umræðu og ekki síst innan nefndarinnar. Hvað réttlætir það að menn geti komið hér og fengið 400 millj. kr. aukafjárveitingu í málaflokk sem kostar 4 milljarða þegar það var svo fækkun á umsækjendum? Við sjáum bara hvar við erum stödd í þessum efnum. Það er engin stefna. Ég er alveg sannfærður um það, af því að hv. þingmaður talar um að það liggi ekki fyrir hér hvernig eigi að fjármagna þetta, þetta sé bara fyrst og fremst fyrir Fjölmenningarsetur, að það verður þá bara kallað eftir aukafjárveitingu. Ef það koma hér 2.000 manns í viðbót vegna þess að við erum búin að auka þjónustuna þá verður bara kallað eftir aukafjárveitingum og þær verða samþykktar hér eins og ekkert sé. Svona hefur þetta verið. Það vantar alla gagnrýna hugsun og umræðu í þennan málaflokk þegar kemur að fjárútlátum. Auk þess, og við þekkjum það, hv. þingmaður, er verið að misnota þetta kerfi. Það þarf að herða reglurnar til að við getum komið í veg fyrir misnotkun og hjálpað þeim (Forseti hringir.) sem virkilega þurfa á því að halda, konum og börnum á stríðshrjáðum svæðum, en ekki að eyða peningunum í einhvern lögfræðikostnað, (Forseti hringir.) húsaleigu, öryggisgæslu og alls konar hluti. (Forseti hringir.) Það er nú bara þannig í þessum málaflokki, í það fara peningarnir.