151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[17:08]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Við ræðum hér mál sem að nafninu til er ríkisstjórnarmál. Það vekur þess vegna furðu að stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar hafa mjög veigrað sér við að tala fyrir þessu máli. Aðeins einn þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefur haldið ræðu í þessari umræðu og raunar frá því að málið var lagt fram fyrst. Einn þingmaður, hv. þm. Brynjar Níelsson, og hann gaf þessu máli ekki háa einkunn. Hann sagði kerfið ónýtt og óttaðist að stjórnmálamenn væru ekki færir um að taka almennilega á þessum málum. Þetta mál sem við ræðum hér er kannski til vitnis um það. Þó er einn flokkur sem er fær um að taka á þessum málum og það er sá flokkur sem hefur mest rætt þetta mál. Enginn þingmaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs hefur komið hér í ræðustól til að tala fyrir þessu máli. Að vísu hefur einn hv. þingmaður Vinstri grænna blandað sér í umræðuna með skeytasendingum á Facebook þar sem hann, verandi í prófkjörsslag í annað sinn fyrir þessar kosningar, sá tækifæri á að vekja á sér athygli með því að kalla umræðuna um þetta mál málþóf, umræðu sem hv. þingmaður lagði þó ekki í að taka þátt í sjálfur. Að vísu hafa tveir þingmenn Framsóknarflokksins tekið þátt í þessari umræðu en þeir gætu ekki verið færri því annars vegar var það ráðherrann sem lagði málið fram og hins vegar framsögumaður málsins eftir meðferð í nefnd. Stuðningur við þetta mál hefur fyrst og fremst komið úr röðum Pírata. Þetta er Píratamál í eðli sínu, enda hið skrýtnasta mál. En þingmenn stjórnarflokkanna hafa ekki treyst sér í umræðu um málið.

Kannski er það ekki svo undarlegt vegna þess að þetta er jaðarmál í norrænum stjórnmálum, í rauninni yst á jaðrinum, gengur þvert gegn því sem aðrar norrænar þjóðir eru að gera. Í Danmörku er samstaða um að fara í þveröfuga átt, alveg frá hægri og langt til vinstri, fram yfir sósíaldemókrata og jafnaðarmenn sem reyndar leiða núna umræðuna um mikilvægi þess að hverfa af þeirri braut sem er boðuð í þessu máli ríkisstjórnar Íslands. Í Svíþjóð hefur orðið söguleg samstaða flokka frá miðju til hægri um að hverfa af þeirri braut sem Svíar hafa verið á í þessum sömu málum. Í Noregi gera menn sér grein fyrir þessu líka og ekki skortir umræðu í Finnlandi. Meira að segja forsætisráðherra Svíþjóðar hefur viðurkennt að það gangi ekki lengur að haga málum með þeim hætti sem gert hefur verið.

En hér leggur ríkisstjórn Íslands fram jaðarmál sem er til þess fallið að auka á þann vanda sem ekki hefur tekist að leysa, sem ríkisstjórnin hefur greinilega gefist upp á. Mál sem fjallar um eitt stærsta viðfangsefni samtímans, flóttamannavandann, og spurninguna um hvernig sé best að koma til móts við fólk á flótta, hjálpa þeim mest sem þurfa mest á hjálpinni að halda. Þetta mál bregst ekki aðeins í því efni heldur felast í því svik við fólkið sem við ættum að hjálpa, rétt eins og danskir jafnaðarmenn skýrðu það í stefnu sinni sem ég vitnaði í í síðustu ræðu minni.

Herra forseti. Ég hef ekki náð að ljúka máli mínu þó að tíminn sé á þrotum og bið því um að verða settur aftur á mælendaskrá.