151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[17:13]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Það er spurning hvernig hlutirnir eru orðaðir en ég ætla að leyfa mér að segja það hér skýrt: Við fylgjum stefnu í þessum málaflokki. Sú stefna lýsir sér í því að hér eru opin landamæri og hér er opinn krani á ríkissjóð. Þetta frumvarp snýst um það að fylgja þessari stefnu fram af enn þá meira kappi. Þessari stefnu er lýst af leiðtogum í Evrópu, ég nefni sérstaklega frú Mette Frederiksen, forsætisráðherra Dana, sem mistökum. Þau hafa horfið frá þessari stefnu. Við fylgjum núna þeirri stefnu sem þau lýsa sem mistökum og þau leitast við núna með hvers kyns aðgerðum að bæta skaðann á sínu samfélagi sem hefur orðið. Þetta er mjög áberandi í Danmörku og sést náttúrlega miklu víðar.

Þessi umræða markar út af fyrir sig ákveðin tímamót vegna þess að það hefur ekki verið leyfilegt að ræða þessi málefni. Það hefur verið eins konar talbann, þagnarskylda, en nú hefur það ástand verið rofið. Það verður ekki neitt talbann hér framar og það verður engin þagnarskylda hér framar. Þessi mál verður að ræða hátt og upphátt og í ljósi staðreynda. Það eru auðvitað mjög margar hliðar á þessu máli, ein er fjárhagsleg, önnur snýr að velferðarkerfinu og svo mætti áfram telja. Auðvitað gerir enginn ráð fyrir neinu í þessum efnum af hálfu Vinstri grænna en hinir tveir flokkarnir í ríkisstjórninni standa að málum með því að ganga mjög hart fram í að fylgja þeirri stefnu sem ég lýsti um opin landamæri og opinn krana á ríkissjóð. Þetta frumvarp er dæmi um það.

Í greinargerð með frumvarpinu sem er lagt fram af hálfu hæstv. félagsmálaráðherra, Ásmundar Einars Daðasonar, vekur mikla athygli setning sem er þar að finna í kafla um mat á áhrifum. Með leyfi forseta, hljóðar hún svo: „Með samræmdu móttökukerfi er unnið að því að tryggja flóttafólki jafna þjónustu óháð því hvernig það kemur til landsins …“. Hér er verið að senda út í heim alveg skýr skilaboð. Landamærin eru opin og hér eru í boði kostakjör. Þetta gengur þvert á það sem Danir eru að gera. Þar liggur fyrir frumvarp um heimild til að flytja hælisleitendur í móttökustöð utan Evrópu og í því felast þau skilaboð til þeirra sem eru að sækja um hæli á efnahagslegum forsendum eða til að leita eftir betri lífskjörum að þeir geti sparað sér það. En það er líka verið að segja við t.d. fólk sem hefur átt í viðskiptum við menn af misjöfnu sauðahúsi, sem hefur kannski látið stórfé eða jafnvel aleiguna fyrir það að fá að fara um borð í einhvern yfirfullan gúmmíbát, einhverja manndrápsfleytu, yfir Miðjarðarhafið og leggja á sig mikla háskaför — tilkynningin til þessa fólks er: Þið getið bara sparað ykkur þetta. Þessi miði sem þið haldið að þið séuð að kaupa til Danmerkur er bara miði í hælisleitendamóttökustöð í Afríku. Nú hefur verið greint frá því að Danir hafi gert samkomulag í þessu efni við Rúanda, og það er hægt að lesa í dönskum fjölmiðlum um efni þess samnings, ég hef ekki tíma til að ræða það hér.

En ég hlýt líka að nefna hæstv. dómsmálaráðherra sem náði því í tveggja mínútna ræðu að lýsa því að hér væri þetta tvennt; opin landamæri, (Forseti hringir.) opinn krani á ríkissjóð. Þetta gerði hún 25. mars sl. þegar hún svaraði andsvari hæstv. forseta hér fyrir aftan mig (Forseti hringir.) um fjárhagsleg málefni tengd útlendingalögum.