151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[17:19]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég ætla að ræða örlítið skipulagða glæpastarfsemi í tengslum við þetta mál. Afleiðingar af því að vera með opin landamæri eru þær að hingað kemur að sjálfsögðu misjafn sauður í mörgu fé. Við höfum orðið illyrmislega vör við það undanfarna mánuði og miklu lengur en það auðvitað, en almenningur varð var við þetta síðastliðinn vetur þegar lögreglan þurfti að takast á við víðtæka starfsemi af þeim toga. Þess vegna vakti athygli mína viðtal við hæstv. dómsmálaráðherra í Bítinu á Bylgjunni fyrir skemmstu þar sem umræðuefnið var einmitt skipulagðir glæpahópar, sem er vandamál sem greiningardeild ríkislögreglustjóra hefur ítrekað bent á í fjöldamörg ár en núna virðist hitamálið vera viðbrögð við þessu. Ráðherra tengdi þetta við Schengen-samstarfið sem við höfum verið í í a.m.k. 25 ár og orðaði það þannig að kostirnir væru fleiri en gallarnir en þó ekki meira en svo að það hefðu verið fleiri kostir við samstarfið fyrir tíu árum en núna. Af hverju skyldi það vera? Jú, í þessu viðtali ræddi hæstv. dómsmálaráðherra einnig við þá félaga í Bítinu um getu lögreglu til að vísa brotamönnum úr landi. Það virðist ekki vera hlaupið að því að uppræta svona glæpahópa þegar við erum í slíku samstarfi sem Schengen er vegna þess að alla jafna eru engin landamæri á milli þessara ríkja allra. Einu landamærin sem við höfum virkilega eru ytri landamæri þeirra ríkja sem eiga í þessu samstarfi. Við erum eyja norður í Atlantshafi en ákváðum samt að vera í þessu samstarfi og súpum seyðið af því að meðtaka alla þá galla sem því fylgja.

Helsta ástæðan fyrir því að við gengum í Schengen-samstarfið á sínum tíma var að við fengjum þá upplýsingar og gætum haft samvinnu við lögregluyfirvöld innan ríkjahópsins. Það skýtur auðvitað skökku við, herra forseti, að þetta hafi verið aðalástæðan vegna þess að bæði Írar og Bretar ákváðu að standa utan við þetta samstarf og ég hef aldrei heyrt annað en að þeir væru í ágætu samstarfi við lögregluyfirvöld í öðrum Evrópuríkjum. Þetta er einhvers konar tilbúin ástæða fyrir því að vera þarna innan dyra. En ef gallarnir eru orðnir fleiri og jafnvel orðnir svo miklu fleiri að það þurfi að endurskoða þetta samstarf þá þarf hæstv. dómsmálaráðherra að vinda sér í það, enda gaf hún nú upp boltann með það í þessu viðtali.

Ég lagði fram beiðni um skýrslu frá dómsmálaráðherra fyrir nokkrum dögum þar sem hæstv. dómsmálaráðherra myndi gera þinginu grein fyrir því hver viðbrögð ráðuneytisins og stjórnvalda hafa verið við uppgangi skipulagðra glæpasamtaka hér á landi undanfarin ár, mörg ár. Þetta er ekki ný saga, greiningardeildin hefur bent á þetta árum saman. Ég vonast til að skýrslan komi fyrir þinglok og við getum skoðað hver viðbrögð ráðuneytisins hafa verið í þessum málum og til hvaða viðbragða það ætlar að grípa í framhaldinu. Það er kominn tími til þess. Innan úr lögreglunni heyrist það auðvitað, og það kom fram í Kompásþætti nýverið, að þetta er mjög mikil vá, enda var það niðurstaða greiningardeildarinnar í síðustu skýrslu að þetta væri mesta vá sem steðjaði að samfélaginu ef undanskildar eru náttúruhamfarir, hvorki meira né minna, herra forseti. Og hvað gerum við? Við fljótum sofandi að feigðarósi. Lögreglumönnum fækkar, þeim er ekki fjölgað. Farið er í einhver átaksverkefni, settir tveir, þrír menn hingað og þangað inn í kerfið en engin alvöru viðbrögð. Ég hlakka mikið til að sjá þessa skýrslu og vona innilega að hæstv. ráðherra taki til hendinni í þessum málaflokki.