Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

um fundarstjórn.

[17:37]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég tók eftir því í lok síðust umræðu að hv. 3. þm. Norðaust., Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, tók tvær ræður í röð. Nú er það mér að meinalausu að við fáum að njóta nokkurra mínútna í viðbót af hugviti hv. þingmanns, en þetta er á skjön við það sem ég hef þekkt af þingi hingað til og hef verið hér frá 2013, mínus eitt ár, milli 2016 og 2017. Reglan hefur verið sú á meðan ég hef verið hér að það komi a.m.k. einn ræðumaður á milli, en svo var ekki í þetta sinn. Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson tók til máls. Þá fór hv. þm. Smári McCarthy í eitt andsvar við hann. Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson svaraði því andsvari og fór síðan strax aftur í ræðu, rakleitt eftir sína eigin ræðu. Mig langar að spyrja virðulegan forseta hvort þetta samræmist reglum og venjum hér þegar kemur að fundarhaldi í þinginu vegna þess að ef þetta er leyfilegt þá verð ég að segja að það breytir svolítið miklu um hvernig við getum búist við því að umræður hér þróist í framtíðinni. Mér finnst það svolítið mikilvægt upp á framtíðina að gera.