151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

um fundarstjórn.

[17:38]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég var einmitt að horfa á þetta í sjónvarpinu og sá þegar hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson steig til hliðar og ég hélt að hann væri að ræða við forseta. Ég áttaði mig ekki á því fyrr en ég leit á klukkuna að hann var kominn í aðra ræðu. Ég held að það samræmist ekki því sem við höfum átt hér að venjast og störfin hafa byggt á fram til þessa, það hefur alltaf einhver þurft að fara á milli. Ég bið hæstv. forseta að veita okkur skýra leiðsögn í því hvort þetta sé eitthvað sem við ætlum að fara að taka upp, að geta bara farið í ræðu úr ræðustól og í ræðustól. Það held ég að hljóti að vera einhver yfirsjón hjá forseta í þetta sinn, ég vona svo sannarlega að svo sé, því að annars gæti einn og sami maðurinn bara staðið hér og valhoppað á milli ef enginn annar er á mælendaskrá.