151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

brottfall laga um vísitölu byggingarkostnaðar.

605. mál
[17:40]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Herra forseti. Ég flyt hér nefndarálit með breytingartillögu vegna frumvarps til laga um brottfall laga um vísitölu byggingarkostnaðar. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið til sín gesti eins og fram kemur í nefndarálitinu.

Með frumvarpinu er lagt til að lög um vísitölu byggingarkostnaðar falli brott en markmið frumvarpsins er að gera Hagstofu Íslands kleift að uppfæra aðferðir við mælingu útreikninga vísitölunnar í samræmi við alþjóðlega þróun aðferðafræði. Í nefndarálitinu er rakið aðeins hvað fram kemur í greinargerðinni en í henni segir að breytingar á virðisaukaskatti orsaki tilfærslur í mælingum vísitölunnar sem valdið hafi notendum vanda. Þá segir:

„Vísitalan bregst við (óreglulegum) breytingum á virðisaukaskatti og endurgreiðsluhlutfalli virðisaukaskatts til einkaaðila sem byggja sjálfir. Betur færi á því að vísitala byggingarkostnaðar mældi ekki verð með virðisaukaskatti vegna þess að fyrirkomulag við húsbyggingar hefur að mestu leyti færst frá einstaklingsframtaki til byggingarfyrirtækja. Fyrirtækin búa við fyrirkomulag inn- og útsköttunar og eiga því ekki tilkall til endurgreiðslu á virðisaukaskatti.“

Nefndinni barst minnisblað frá fjármála- og efnahagsráðuneyti þar sem bent var á að ákveðins misskilnings gætti í greinargerð um stöðu byggingarfyrirtækja gagnvart virðisaukaskatti og um áhrif hans á kostnað við byggingu íbúðarhúsnæðis. Í minnisblaði ráðuneytisins er fjallað um takmarkaðan rétt byggingaraðila til þess að fá virðisaukaskatt frádreginn sem innskatt og reglur um rétt til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu manna á byggingarstað íbúðarhúsnæðis. Bendir ráðuneytið á að utan þeirra reglna fáist virðisaukaskattur vegna byggingar, endurbóta eða viðhalds íbúðarhúsnæðis eða annarra mannvirkja hvorki frádreginn sem innskattur né endurgreiddur sérstaklega og nemi að því frátöldu hátt í 20% alls byggingarkostnaðar. Þá segir:

„Breytingar á skatthlutfalli eða endurgreiðsluhlutfalli virðisaukaskatts hafa því vissulega áhrif á byggingarkostnað og þar með vísitölu byggingarkostnaðar en í því sambandi skal bent á að samkvæmt athugasemdum við 2. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 42/1987 var byggingarvísitölunni ætlað að sýna breytingar byggingarkostnaðar frá einum tíma til annars fremur en að vera mælikvarði á meðalbyggingarkostnaði í landinu á hverjum tíma.“

Ráðuneytið telur þó ekki tilefni til að gera athugasemdir við ákvæði frumvarpsins og þau meginatriði málsins sem gefa tilefni til þeirra.

Nefndin leggur til breytingu á gildistökuákvæði frumvarpsins þannig að breytingar á 4. gr. laga um gatnagerðargjald, sem kveðið er á um í 3. gr., öðlist gildi samhliða brottfalli laga um vísitölu byggingarkostnaðar, sem miðast við 1. janúar 2022.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeirri breytingu sem stendur í skjalinu.

Smári McCarthy og Oddný G. Harðardóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið skrifa Óli Björn Kárason, formaður, Ólafur Þór Gunnarsson, framsögumaður, Jón Steindór Valdimarsson, Brynjar Níelsson, Bryndís Haraldsdóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Þórarinn Ingi Pétursson.