151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

loftferðir.

613. mál
[18:28]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég vil benda framsögumanni málsins á — nefndin flytur þetta mál og hann er framsögumaður nefndarinnar í málinu — að það sem hann er að biðja Alþingi um að gera núna á lokastigum í þessum faraldri er að heimila ráðherra með lögum, sem eru alveg líkur á að verði dæmd ólög fyrir dómstólum, að setja reglugerð sem bannar Íslendingi að koma til landsins, að banna Íslendingum sem gangast ekki undir þessi þrjú skilyrði að koma til landsins, ekki bara það heldur að skylda flugfélög til að banna Íslendingum að koma til landsins. 66. gr. stjórnarskrárinnar er alveg skýr með það að það má ekki meina Íslendingum, íslenskum ríkisborgurum, að koma til landsins. Það er ekki ljóst að þetta standist stjórnarskrá. Það er það sem hefur komið fram í nefndinni. Framsögumaður er að biðja meiri hluta Alþingis um að taka sénsinn með sér á að brjóta gegn stjórnarskrá. Þá vil ég minna hann á að hann er búinn, við drengskap sinn, að segjast halda stjórnarskrá landsins. (Forseti hringir.) Þarna er hann að biðja um heimild fyrir ráðherra til að banna íslenskum ríkisborgurum að koma til landsins. Gerir hann sér grein fyrir þessu?