151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

loftferðir.

613. mál
[18:30]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er bara rangt hjá þingmanninum. Hann hefur svarið eiðstaf samkvæmt stjórnarskránni um að halda hana. Hægt er að ná sömu sóttvarnamarkmiðunum með vægari úrræðum og þau eru lögð fram í breytingartillögu 1. minni hluta, um að þetta eigi ekki við um íslenska ríkisborgara. Það er hægt að fara aðrar leiðir.

Ef menn brjóta þetta eru þeir að brjóta sóttvarnareglurnar. Ef þeir brjóta þetta á brottfararstað, hafa ekki skilað þessum vottorðum, þá koma þeir til landsins og eru strax teknir af lögreglu á sóttvarnahótel. Það eru dómafordæmi fyrir því og það er heimilt. En það er ekki heimilt samkvæmt stjórnarskránni okkar að banna Íslendingum að koma til landsins á þessu, það er alla vega ekki víst að það sé heimilt og hefur ítrekað verið talað fyrir nefndinni um vafa í þessum álitaefnum.

Þegar vafinn er til staðar, hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson, er það þingmannsins og annarra þingmanna að láta stjórnarskrána njóta vafans ef þeir ætla að halda sín drengskaparheit, halda stjórnarskrána og passa upp á réttindi landsmanna, grunnréttindi sem eru fortakslaust þessi ákvæði í stjórnarskránni um að koma til lands síns. Það er það sem stjórnarskráin segir okkur. Lagt er til að ráðherra fái þessa heimild í lögum til loka árs 2022. (Forseti hringir.) En lykilatriðið er þetta: Vafi er um stjórnarskrárvarin réttindi. (Forseti hringir.) Mögulega er verið að leggja til að ráðherra fái heimild til þess að brjóta á þessum réttindum og þingmaðurinn veit ekki einu sinni að drengskaparheit hans snýr að nákvæmlega þessu, að halda stjórnarskrá.