151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

loftferðir.

613. mál
[18:34]
Horfa

Olga Margrét Cilia (P) (andsvar):

Forseti. Mér finnst þetta frumvarp frekar undarlegt, eða meðferðin á því. Í byrjun mars kom reglugerð frá hæstv. heilbrigðisráðherra og þá spurði ég ráðherra hvort til staðar væri lagaleg heimild til að skylda flugfélög til að neita íslenskum ríkisborgurum um inngöngu í landið. Nokkrum dögum síðar kom þetta lagafrumvarp fram, 18. mars, og ég spurði út í það og fékk lítil svör. Ég velti því fyrir mér hvort verið sé að byrja á vitlausum enda og hvort þetta sé eftirálagaheimild til að bæta fyrir þau mistök sem voru gerð með reglugerðinni á sínum tíma. Þá velti ég fyrir mér af hverju lá svona á að koma þessu frumvarpi fram, hvort það gæti verið vegna mögulegrar bótaskyldu Icelandair gagnvart farþegum, að ekki sé lagaleg heimild fyrir félagið til að neita íslenskum ríkisborgurum um að fara upp í flugvél. Er verið að taka hér hagsmuni Icelandair fram yfir stjórnarskrárvarin réttindi íslenskra ríkisborgara?