151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

loftferðir.

613. mál
[18:36]
Horfa

Olga Margrét Cilia (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þessi svör. Það er einmitt þetta með alla umræðu í kringum aðgerðir vegna Covid. Hér er talað um hagsmuni almennings og það að við þurfum að verja heilbrigðisyfirvöld og -kerfið fyrir mögulegum smitsjúkdómi.

Ég spyr hv. þm. Ara Trausta Guðmundsson út í þetta með reglugerðina frá heilbrigðisráðuneytinu á sínum tíma, af því að í mínum huga var þetta nátengt. Það átti að koma þessu frumvarpi mjög fljótt í gegn á sínum tíma, sem var stöðvað af því það var afar óljóst hvort þetta stæðist stjórnarskrána. Ég hef spurt um það, og það hefur svo sem verið spurt um það úti í samfélaginu líka, hvort verið sé að fara í þessar aðgerðir og setja þessi lög til að ívilna flug- og ferðaþjónustunni. Ég verð bara að ítreka þá spurningu af því að það lítur alltaf þannig út og ég vil bara fá það á hreint að þetta sé gert með réttindi borgaranna í huga.