151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

loftferðir.

613. mál
[18:38]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér er eiginlega orða vant, ég verð að játa það. Nú eru skoðuð plögg og pappírar á landamærunum og ég býst við að flugrekendum þyki það íþyngjandi. Verið er að bæta við annarri skoðun, sem er að vísu mjög yfirborðsleg, vegna þess að fólk mun ekki hafa forsendur til að gera ákveðna hluti, sem ég gerði hér grein fyrir, í útlöndum. Hvernig það á að vera ekki íþyngjandi heldur ívilnandi fyrir einhver flugfélög veit ég ekki. En á móti kemur að það hefur ekki verið viðrað, a.m.k. ekki í mín eyru þegar rætt var við ráðuneytin eða þá sem haft var samráð við við gerð þessara laga, að menn hafi eitthvað á móti þessu. Ég sé þetta fyrir mér, eins og ég orðaði það áðan, sem tilraun til að halda sóttvörnum á ákveðnu stigi hér. Það var samdóma álit þeirra þriggja ráðuneyta sem við ræddum við í tvígang vegna óska um að það bæri að leggja fram þetta frumvarp þrátt fyrir óvissu um eitt eða annað.